Egill Helgason skrifar hér af skynsemi um þessa baráttu. Bendir hann meðal annars á að sjókvíaeldisfyrirtækin, sem ganga fram af svo mikilli hörku, eru að stórum hluta í eigu norskra fyrirtækja.

Egill nefnir hins vegar ekki að norsku félögin eru vellauðug, metin á mörg hundruð milljarða króna, og hafa hér á launaskrá fjölmarga starfsmenn sem gera fátt annað en að herja látlaust á stofnanir og stjórnmálamenn. Þar á meðal er fyrrverandi forseti alþingis og sjávarútvegsráðherra sem fór beint af alþingi í vinnu fyrir sjókvíaeldisfyrirtækin.

“Jú, það er dýrt að veiða í íslenskum ám og varla á færi nema efnafólks. Það er auðvelt að magna upp heift með því að benda á laxveiðielítuna. En hér er auðvitað ekki um veiðimenn að tefla, heldur sjálft lífríkið, laxinn sem hefur synt sína leið upp í íslenskar ár frá því löngu áður en fólk kom til Íslands – sjálfsögð varúð þegar náttúran er annars vegar, ekki veiðileyfi.

Það eru líka fleiri spurningar sem leita á vegna laxeldisins. Það skapar vissulega störf, en hvers vegna í ósköpunum er milli 80 og 90 prósent af eldinu í eigu norskra fyrirtækja? Hví leita þau nú hingað? Og er þá ekki líka sjálfsagt að þau greiði auðlindagjald fyrir afnotin af íslenskri náttúru?”