Björt Ólafsdóttir fyrrverandi umhverfisráðherra skrifar mjög þarfa ádrepu í Fréttablaðið í dag.

„Hvar eru þeir í pólitík sem eiga enn einhvern snefil af sannfæringu og hugsjón fyrir því meginstefi í náttúruvernd sem og verndun fjölbreytileika lífríkis að verndunin sjálf í eðli sínu sé það mikilvæga? Ekki fyrir peninga hvort sem það séu vasar Norðmanna eða veiðiréttarhafar laxveiðiáa. …

Lærum einhvern tímann af fortíðinni. Fyrir nokkrum árum þótti stjórnmálamönnum Vinstri grænna olíuleit og kísilmálmver góðar og grænar hugmyndir ekki síst til þess að styðja við byggð í landinu. Hættum að láta eins og við vitum ekki að opið sjókvíaeldi sé mengandi. Og hættum að láta eins og störfin þar verði mörg til frambúðar mitt í því að stjórnmálamenn tala sig hása um fjórðu iðnbyltinguna og sjálfvirknivæðingu starfa sem verða þar auðvitað eins og í öðrum sjávarútvegi.

Ég skil vel reiði Vestfirðinga sem hafa setið eftir. Pólitíkusar hafa ekki sinnt því að skapa almenn skilyrði til þess að fjölbreytt samfélag megi þar dafna. Það er gert með hringtengingu rafmagns, vegöngum og styrkingu vegakerfis og ljósleiðara. Þetta er hlutverk stjórnmálanna. Ef ráðamenn samtímans hafa ekki þá sýn að bjóða fólkinu í landinu hvort sem það býr á landsbyggðinni eða í borg að fá að búa heima hjá sér og hafa nóg að starfa án þess í leiðinni að eyðileggja lífríki og náttúru, þá á það fólk í stjórnmálunum að finna sér eitthvað annað að gera.“