Hinn virti fréttaskýringaþáttur BBC, Panorama, birti í gærkvöldi magnaða útekt á sjókvíaeldisiðnaðinum í Skotlandi. Í þættinum kemur meðal annars fram að þessi iðnaður leggur gríðarlega vinnu í að halda umhverfisáhrifum sjókvíaeldisins frá neytendum.

Þá er skoska umhverfisstofnunin (SEPA) harðlega gagnrýnd fyrir slaka frammistöðu við eftirlit og ekki síður eftirfylgni þegar fyrirtækin eru staðin að brotum. SEPA hefur á undanförnum fimm árum gefið 56 fyrirtækjum lélega einkun í rekstri. Samt hefur ekkert þeirra verið kært eða sektað. Á sama tíma hefur SEPA 44 sinnum staðið fyrirtækin að því að framleiða meira en leyfi er fyrir án þess það hafi haft áhrif á rekstrarleyfin.

Rætt er við einn starfsmann undir nafnleynd sem staðhæfir að félög í eigu norska risafyrirtæksins Mowi (áður þekkt sem Marine Harvest) fari allt upp í 700 tonn umfram eldisleyfin á hverjum stað. Þetta komast þau upp með í skjóli lélegs regluverks og eftirlits. Með réttu ætti að svipta þessi fyrirtæki leyfi því þau eru meðvitað að brjóta skilyrði sem starfseminni eru sett til þess að draga úr umhverfisáhrifum þeirra.

Þessu til viðbótar hafa sjókvíaeldisfyrirtækin við Skotland farið fram úr leyfilegri efnanotkun 28 sinnum á undanförnum árum. Þar af Mowi 20 sinnum.

Panorama hefur heimildir fyrir því að fyrirtækið sæti nú rannsókn vegna óleyfilegra eiturefnanotkunar. Húsleit var framkvæmd hjá fyrirtækinu snemma þessa mánaðar.

Fólk þarf að vera mjög bláeygt til þess að trúa því að þetta sé eitthvað öðruvísi hér á Íslandi.