Setjum náttúruna og fólkið í öndvegi

Stórfellt iðnaðareldi í opnum sjókvíum ógnar náttúru, lífríki og afkomu fólks í sveitum Íslands

I   Strokulaxar úr eldi tvöfalt fleiri en villtir laxar

Gera má ráð fyrir að einn eldislax sleppi úr hverju tonni sem alið er í opnum sjókvíum. Það þýðir að 71 þúsund erfðabreyttir norskir eldislaxar munu sleppa í sjóinn við Ísland á hverju ári miðað við hóflegustu áætlanir eldissinna. Hrygningarstofn íslenska villta laxins er um 35 þúsund fiskar. Eldislax hefur valdið erfðablöndun á 80% náttúrulegra stofna í Noregi.

II   Yfir 1.500 fjölskyldur njóta tekna af veiðihlunnindum

Hlunnindi af silungs- og laxveiði hafa kynslóðum saman verið mikilvæg stoð við búsetu í sveitum landsins. Sjókvíaeldi ógnar afkomu fjölda bændafjölskyldna.

III   Skólpmengun á við 568 þúsund manns

Landssamband fiskeldisstöðva segir að skólp af hverju tonni í eldi sé á við “klóakrennsli frá 8 manns.” Umhverfissamtök segja þessa tölu vera hærri. Miðað við tölu fiskeldisstöðvanna mun skólp sem jafngildir klóakrennsli frá 568 þúsund manns streyma árlega til sjávar frá fiskeldisstöðvum (miðað við 71 þúsund tonn af eldislaxi). Líklega er þessi tala mun hærri.

IV   Allir laxastofnar á Íslandi í hættu

Eldislaxar sem sleppa úr sjókvíum á Vestfjörðum og Austurlandi geta synt mörg hundruð kílómetra norður eða suður fyrir landið og þannig borist í öll fersk vatnskerfi á Íslandi sem renna til sjávar.

Byggjum upp umhverfisvænt eldi eftir ströngustu kröfum.

Í Noregi er eldi í opnum sjókvíum á útleið. Vöndum til verka og byggjum upp eldi með best mögulegu tækni: Í lokuðum kerfum þar sem mengun og strok fiska eru í lágmarki.