1%

Sjókvíaeldisfyrirtækin greiða ekkert gjald fyrir afnot af hafssvæðum sem eru í eigu þjóðarinnar. Samkvæmt ráðamönnum er hins vegar verið að undirbúa auðlindagjald. Sú upphæð sem hefur verið nefnd er þó hlægilega lág, eða 15 krónur á hvert kíló sem sjókvíaeldin hafa leyfi til að framleiða. Það er 15 þúsund krónur á tonn, eða eitt prósent af því sem er greitt að lágmarki fyrir hvert tonn í Noregi. Þar er lægsta gjaldið 1,5 milljón krónur á tonn, en í útboði á 12 þúsund tonna heimildum fyrr í sumar var meðalverðið hins vegar um 2,5 milljónir króna.

Íslenskir eigendur sjókvíaeldisfyrirtækjanna hafa þegar leyst út gríðarlega fjármuni með því að selja hlut í fyrirtækjunum til Noregs, áður en þau voru farin að skila hagnaði sem nokkru nemur. Allt er þetta byggt á rekstrarleyfum þar sem ekkert er greitt fyrir afnot af náttúru landsins heldur gengið óspart á hana með mjög ágengum hætti.

Mengunin frá sjókvíunum streymir óhreinsuð beint í sjóinn, reglulega synda norsku eldislaxarnir útúr þeim í stórum stíl og setja þannig villtu íslensku laxastofnana í stóran háska, og svo er lítið sem ekkert vitað um áhrifin á þorskinn, rækjuna og aðra nytjastofna sem eiga sínar uppeldisstöðvar í fjörðum landsins. Að safna saman gríðarlegum lífmassa, milljónum fiska í sjókvíum, í þrönga firði, láta skólpið frá þessu streyma beint í sjóinn, að ekki sé minnst á eitrið sem er notað gegn laxalúsinni, eru örugglega ekki ákjósanlegustu skilyrðin fyrir þá nytjastofna sem eru í nágrenninu.

Sjá umfjöllun um þetta mál á Vísi.