Í frétt Stundarinnar er rifjað upp að í skýrslu um ástand villtra laxastofna í Noregi sem kom út í fyrra var niðurstaðan sú að erfðablöndun væri stærsta ógnin sem steðjar að villtum laxastofnum í Noregi. Í skýrslunni segir að erfðablöndun milli eldislaxa og villtra laxa hefði verið staðfest í 61 af 175 ám sem skoðaðar hefðu verið.

“Slysaslepping á eldislöxum átti sér stað hjá Arnarlaxi í sumar þegar göt mynduðust á eldiskví. Eins og Stundin hefur greint frá er ekki hægt að staðfesta nákvæman fjölda eldislaxa sem sluppu úr þeirri kví, hvort 5 laxar eða jafnvel nærri 5000. Fyrir liggur að tæplega 5000 færri eldislaxar voru í kvínni þegar slátrað var úr henni en átu  að vera. …

Í svari við fyrirspurn Stundarinnar í tölvupósti segir Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax, að hann vilji ekki tjá sig um málið þar sem þeir „hagsmunaðilar sem um ræðir“ eigi í málaferlum við Arnarlax. „Þar sem þeir hagsmunaaðilar sem þarna um ræðir eru aðilar að málaferlum gegn Arnarlaxi munum við ekki tjá okkur frekar um þetta atvik. Vísa því góðfúslega á þá opinberu aðila sem hafa það hlutverk að sinna óhlutlægu eftirliti og greiningum á vísindalegum forsendum við aðstæður sem þessar,“ segir Kjartan.

Kjartan vill ekki svara nánar eða útskýra hvað hann á við með þessum orðum þegar honum er bent á að þetta sé niðurstaða Matís, opinberrar stofnunar, í kjölfar DNA-rannsókna á umræddum löxum. Það sem Kjartan á hins vegar líklega við er að yfir standa nú málaferli fjölda veiðifélaga og veiðiréttarhafa við íslensk laxeldisfyrirtæki út af sjókvíaeldi þeirra á Íslandi. Spurningin sem eftir stendur er hins vegar hvernig DNA-greining ríkisstofnunar á tveimur eldislöxum úr einni á tengist þessum málaferlum.”