Þetta er vægast sagt athyglisvert. Örfáir einstaklingar og fyrirtæki eru að fá á silfurfati gríðarlega verðmæt framseljanleg leyfi til að gera út á íslenska náttúru.

„Ef Ísland myndi selja laxeldiskvóta á sama verði og Norðmenn ætti íslenska ríkið að fá 110 milljarða króna fyrir 71 þúsund tonna framleiðslu. Auðlindagjaldið sem stungið er upp á skýrslu nefndar um stefnumörkun í laxeldi nemur einum milljarði króna fyrir 67 þúsund tonna framleiðslu. Íslenskt laxeldi að stóru leyti í eigu norskra aðila sem greiða ekkert fyrir laxeldisleyfin,“ segir í þessari frétt Stundarinnar:

“Íslenska ríkið gefur laxeldisfyrirtækjum sem stunda sjókvíaeldi á Íslandi laxeldiskvóta sem seldur er dýru verði í Noregi. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu norsku ríkisstjórnarinnar verður haldið uppboð á nýjum leyfum í eldislaxeldi þar í landi í júní þar sem lágmarksverð fyrir tonnið verður 120 þúsund norskar krónur eða tæplega 1.560 þúsund íslenskar krónur. Norska ríkið hefur ekki gefið út ný laxeldisleyfi um árabil vegna þeirra umhverfisáhrifa, meðal annars erfðablöndun við norskan villtan lax, sem laxeldið þar í landi hefur haft.

Ef litið er til þess að stærsta laxeldisfyrirtæki Íslands, Arnarlax, ráðgerir að framleiða 8 þúsund tonn af eldislaxi í ár – upphaflega stóð til að framleiða 11 þúsund en skakkaföll í rekstrinum hafa sett strik í reikninginn – þá myndi fyrirtækið þurfa að greiða norska ríkinu tæpa 12,5 milljarða íslenskra króna fyrir þennan kvóta.”