Við tökum undir hvatningu Veiðifélags Víðidalsár til umhverfisráðherra Guðmundar Inga Guðbrandssonar um að beita sér í þessu mikilvæga náttúruverndarmáli.

Ályktun Veiðifélags Víðidalsár
„Aðalfundur Veiðifélags Víðidalsár haldinn í Tjarnarbrekku 9. apríl 2018 mótmælir öllum hugmyndum um útgáfu eldisleyfa á norskum kynbættum laxi í opnum sjókvíum bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Fundurinn minnir á að Hafrannsóknarstofnun leggst gegn stjórnlausu laxeldi í sjókvíum í áhættumati sínu og telur að það geti stórskaðað villta laxastofna landsins. Þá bendir fundurinn á nálægð við verðmætar laxveiðiár allt í kringum landið og þau miklu náttúruverðmæti sem þar eru í húfi.

Fundurinn átelur Skipulagsstofnun fyrir hringlandahátt svo sem í Ísafjarðardjúpi, þegar stofnunin dró til baka álit sitt nýverið þar sem stofnunin lagðist gegn fyrirhuguðu laxeldi.

Fundurinn skorar á núverandi umhverfisráðherra Guðmund Inga Guðbrandsson, að sitja ekki hjá í þessu mikilvæga náttúruverndarmáli.“

Ályktunin var samþykkt samhljóða og hefur hún verið send umhverfisráðherra sem og þingmönnum Norðvesturkjördæmis.