Ef umboðsmönnum fiskeldisfyrirtækjanna er alvara með að vilja stuðla að atvinnuuppbyggingu á Íslandi þá er landeldi leiðin sem tryggir það.

Jón Kaldal skrifar í Fréttablaðinu í dag:

“Sjókvíarnar eru ekki aðeins svo frumstæð tækni að fiskar sleppa alltaf út og mengunin frá þeim rennur beint í sjóinn, heldur bjóða þær líka upp á þann möguleika að stór verksmiðjuskip mönnuð erlendri áhöfn geta lagt upp að þeim, sogið upp eldislaxinn og siglt burt. Þannig verða ekki til störf á Íslandi.

Við okkur blasir sem sagt að fiskeldisfyrirtækin, sem eru í meirihluta í norskri eigu, munu senda skip sín eftir eldislaxinum og fara með hann annað. Á Íslandi verða í besta falli örfáir starfsmenn sem sinna viðhaldi sjókvíanna. Önnur störf og hagnaðurinn verður til utan landhelginnar. Við sitjum hins vegar eftir með um­hverfis­mengunina og óafturkræfan skaða á villta íslenska laxastofninum.

Ef umboðsmönnum fiskeldisfyrirtækjanna er alvara með að vilja stuðla að atvinnuuppbyggingu á Íslandi þá er landeldi leiðin sem tryggir það. Landeldi útilokar líka mögulega erfðablöndun við villta laxinn og þar er notaður hreinsibúnaður en úrganginum ekki dembt beint í sjóinn eins og í sjókvíaeldinu.”