Nú vill formaður VG, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, „koma böndum á sjókvíaeldi“ sem hann sagði á Alþingi í dag hafa vaxið allt of hratt við Ísland án þess að lagarammi eða eftirlit hafi fylgt með.
Guðmundur Ingi virðist vera búinn að steingleyma að ríkisstjórnarflokkarnir settu sjálfir 2019 þau lélegu lög sem nú gilda og kusu þá að hafa að engu aðvaranir um að þau dygðu engan veginn til að verja lífríki og náttúru Íslands fyrir skaðanum sem sjókvíaeldi á laxi veldur.
Frumvarpið sem hann vill nú breyta var samið undir stjórn Svandísar Svavarsdóttur og Katrínar Jakobsdóttur þegar hún leysti Svandísi af í veikindaleyfi í Matvælaráðuneytinu, og svo lagt fram af Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur þegar hún var nýkomin í stól matvælaráðherra eftir að Katrín hvarf á braut til að fara í framboð til forseta. Allt eru þetta floksssystur Guðmundar Inga.
VG er algerlega rúið trausti í þessu máli. Þetta frumvarp er stórslys. Hið eina rétta er að draga það til baka og vinna upp á nýtt þannig að umhverfið og lífríkið fái nauðsynlega vernd fyrir þessum skaðlega iðnaði.
Í umfjöllun Morgunblaðsins segir:
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir mikilvægt að skoða hvort hægt sé að tryggja sömu umhverfiskröfur með tímabundnu leyfi til lagareldis.
Þetta var meðal þess sem fram kom í svari Guðmundar við spurningum Jóhanns Páls Jóhannssonar, þingmanns Samfylkingar í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi fyrr í dag. …
Áður en Guðmundur svaraði spurningum Jóhanns sagði hann sjókvíeldi hafa vaxið allt of hratt við Ísland án þess að lagarammi eða eftirlit fylgdi með og því undirstrikaði hann mikilvægi þess að böndum yrði komið á sjókvíeldi í landinu. …
Þá sagðist hann skilja það sem svo að við smíði frumvarpsins hefði matvælaráðuneytið tekið fyrir sjónarmið bæði um tímabundin og ótímabundin leyfi. Það hafi komið til ítarlegrar skoðunar og sérstaklega í samhengi við möguleikann á því að geta beitt sem ströngustum viðurlögum við brotum á lögunum, þar með talið leyfissviptingu. Það sé auðveldara ef um ótímabundin leyfi sé að ræða.
„Þetta er lögfræði og ráðuneytið ákvað að fara eftir þessum ráðleggingum,“ sagði Guðmundur áður en hann kvaðst skilja áhyggjur Jóhanns og margra annarra þingmanna enda hefði hann verið fylgjandi tímabundnu leyfi.
…
„Með fullri virðingu þá er þetta auðvitað alger hundalógík að halda því fram að ótímabundinn leyfi séu einhvers konar forsenda þess að það sé með góðu móti hægt að beita viðurlögum. Að það sé með einhverjum hætti íþyngjandi í sjálfu sér,“ sagði Jóhann því næst á sama tíma og hann fagnaði því að Guðmundur Ingi væri reiðubúinn að skoða það að leyfin yrðu frekar tímabundin.