Við hjá IWF höfum ásamt Landvernd, Verndarsjóði villtra laxastofna og Nátturuverndarsamtökum Íslands tekið saman höndum við Patagonia til að tryggja að raddir fólksins sem hefur skrifað undir þessa áskorun berist Alþingismönnum og konum áður en gengið verður til atkvæða um frumvarpið um breytingar á lögum um fiskeldi.

Villtum laxa- og silungsstofnum, sem og lífríki sjávar almennt, er ógnað af skordýraeitri, sníkjudýrum, mengun og fiski sem sleppur úr opnum sjókvíum við Ísland. Við þetta bætist að velferð eldisdýranna í sjókvíunum er víða afar bágborin í sjókvíaeldisiðnaðinum. Á hverju ári drepast milljónir ofan á milljónir laxa vegna þess aðbúnaðar sem þeir þurfa að þola í kvíunum.

Laxeldi í opnum sjókvíum er þannig skýrt dæmi um slæmar aðferðir við matvælaframleiðslu sem ógnar lífríki og umhverfi á heimsvísu.

Sjá. frétt Vísis um undirskriftasöfnunina:

“Nú hafa tæplega 140 þúsund manns víðs vegar úr Evrópu skrifað undir áskorun um að laxeldi í opnum sjókvíum verið hætt við Ísland, Noreg, Skotland og Írland. Auk Patagonia standa NASF, Verndarsjóður villtra laxastofna, og sambærileg samtök í Noregi, Skotlandi og Írlandi að baki undirskriftasöfnuninni. Til stendur að afhenda Alþingi undirskriftirnar áður en atkvæði verða greidd um frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingar á lögum um fiskeldi.”