„Eftir nokkrar umferðir frumvarpsins hjá SFS og starfsmönnum matvælaráðuneytisins, sem eru nokkrir fyrrum starfsmenn SFS og sjókvíaeldisins, þá hefur fæðst óskapnaður. Búið er að taka allt bit úr þeim ákvæðum sem halda áttu fyrirtækjunum við efnið og frumvarpið er ekkert annað en tilraun til að festa enn frekar í sessi þann mengandi og stórskaðlega iðnað sem sjókvíaeldi á laxi er,“ segir í meðfylgjandi grein Yngva Óttarssonar.

Frumvarpið sem var skrifað í tíð Svandísar Svavarsdóttur í Matvælaráðuneytinu og sent til Alþingis á meðan Katrín Jakobsdóttir leysti hana af í veikindaleyfi er gríðarleg vonbrigði. Það skorti alla bitastæða vernd fyrir lífríkið og umhverfið í frumvarpið.

Greinin birtist á Vísi:

SFS og norsku sjókvíaeldisfyrirtækin sem starfa hér við land hafa heldur betur komist með krumlurnar í frumvarp matvælaráðherra um fiskeldi.

Lagt var af stað af hálfu matvælaráðherra með fögur fyrirheit. Frumvarpið átti að taka á því ófremdarástandi sem er í sjókvíaeldinu, stroki eldislaxa, lúsafári, sjúkdómum, menguninni, hrikalegum dýravelferðarvanda og öðrum skuggahliðum þessa iðnaðar. Lausatök á brotum á ákvæðum leyfa áttu að heyra sögunni til. Þegar fyrirtækin misstu eldislax úr sjókvíunum áttu til dæmis framleiðsluheimildir fyrirtækjanna að skerðast umsvifalaust.

En eftir nokkrar umferðir frumvarpsins hjá SFS og starfsmönnum matvælaráðuneytisins, sem eru nokkrir fyrrum starfsmenn SFS og sjókvíaeldisins, þá hefur fæðst óskapnaður. Búið er að taka allt bit úr þeim ákvæðum sem halda áttu fyrirtækjunum við efnið og frumvarpið er ekkert annað en tilraun til að festa enn frekar í sessi þann mengandi og stórskaðlega iðnað sem sjókvíaeldi á laxi er.

Tillaga að nýju kvótakerfi
Í stað núgildandi ákvæða um tímabundin leyfi til sjókvíaeldis til 16 ára þá kveður frumvarpið á um að leyfin verði ótímabundin. Það þýðir að erfitt verður að leggja sjókvíaeldi af án þess að fyrirtækin krefji ríkið um bætur.

Í stað núverandi leyfa til sjókvíaeldis fyrir tilgreindu framleiðslumagni þá kveður frumvarpið á um að leyfin veiti rétt til prósentvís hlutdeildar í framleiðslu á tilteknu svæði, svokallaðrar laxahlutdeildar. Og að framleiðsluleyfin verði framseljanleg og veðsetjanleg.

Þetta er ekkert annað en tillaga að nýju kvótakerfi, tilraun SFS til að veita sínum norsku húsbændum skjól frá íslenskum almenningi sem samþykkir ekki þann sóðaiðnað sem sjókvíaeldið er.

Hér á að bjóða þjóðinni upp á næsta kafla af Verbúðinni. Kvótakerfið fyrra, í sjávarútveginum, var til að vernda náttúruna, en þetta lagareldisfrumvarp er tillaga um eldiskvótakerfi sem beinlínis leyfir eyðileggingu náttúrunnar.

Glæpur gegn náttúrunni
Það er ótrúlegt að af hálfu Matvælaráðherra að ætla Alþingi Íslendinga, og þeim 63 fulltrúar sem þar sitja, að stefna að útrýmingu mikilvægrar dýrategundar úr náttúru íslands, villta íslenska laxastofnsins. Sú fyrirætlan er ekkert annað en glæpur gegn náttúrunni og komandi kynslóðum þessa lands.

Frumvarpið eins og það stendur í dag er hugarfóstur sjókvíaeldisins á vakt vinstri grárra. Það má ekki verða að lögum.