Eins og við höfum beint á er sjálfstætt rannsóknarefni hvernig það gat gerst að tillögur Skipulagsstofnunar að strandsvæðaskipulagi fyrir Austfirði og Vestfirði fóru í almenna kynningu í sumar. Svo augljósir voru annmarkar á tillögunum en í þeim eru hagsmunir sjókvíaeldis grímulaust settir í forgang á kostnað öryggis siglinga, fjarskiptainnviða, annarrar mögulegrar nýtingu í viðkomandi fjörðum, náttúrunnar og lífríkisins, eins og við hjá IWF bentum reyndar á í okkar umsögn um málið.

Tillögurnar eru svo illa unnar að ekki getur annað verið en að einhver(jir) þurfi að svara fyrir málið og axla ábyrgð á því.

Fróðlegt er til dæmis að skoða viðsnúning Samgöngustofu í þessu máli. Samgöngustofa skilaði fyrst umsögn þann 14. september (daginn sem umsagnarfresturinn rann út) og var þar furðu jákvæð.

Tónninn var hins vegar heldur betur breyttur í umsögn sem Samgöngustofa skilaði þann 6. október en þar er tillögum Skipulagsstofnunar að strandsvæðaskipulaginu gjörsamlega slátrað eimitt vegna slagsíðunnar í þágu sjókvíaeldisins.

Grípum hér dæmi úr seinni umsögn Samgöngustofu:

„Ljóst er að öryggi siglinga hefur á tilteknum svæðum í tillögunum verið vikið til hliðar fyrir svæði fyrir staðbundna nýtingu undir eldissvæði. Sum eldissvæðin hafa í tillögunum verið merkt í hvítum ljósgeirum vita, en fortakslaust er að sigling í hvítum geira á að vera hindranalaus og örugg. Eins hafa nokkur eldissvæði verið merkt ofan í hefðbundnar, almennar siglingaleiðir. Að mati Samgöngustofu ber siglingaöryggi að hafa afgerandi forgang við skipulagsgerð.“

Samgöngustofa listar síðan upp í umsögn sinni þrjátíu (þrjátíu!) eldissvæði sem fólkið á bakvið strandsvæðistilögurnar hefur ýmist sett innan hvíts ljósgeira vita eða ofan í hefðbundnar, almennar siglingaleiðir í þessum fjörðum:

 • Seyðisfirði
 • Mjóafirði
 • Reyðarfirði
 • Fáskrúðsfirði
 • Berufirði
 • Ísafjarðardjúpi
 • Álftafirði/Súðavík
 • Önundarfirði
 • Dýrafirði
 • Arnarfirði
 • Tálknafirði
 • og Patreksfirði

Hugsið ykkur að benda þurfi Skipulagsstofnun á þessi grundvallaratriði!

Því miður kemur þetta okkur sorglega lítið á óvart. Mikill skortur hefur verið á fagmennsku opinerra stofnana í umgjörð sjókvíaeldis. Að sú sé enn staðan árið 2022 er óskiljanlegt.

Við hvetjum ykkur til að lesa umsögn Samgöngustofu í heild. Hún fylgir hér með.