Veiga Grétarsdóttir er stórkostleg hetja. Myndefnið sem hún náði síðasta haust af meðferð sjókvíaeldisfyrirtækjanna á eldisdýrunum vakti óhug um allan heim.
Þar sáust eldislaxar sem áttu sér enga lífsvon eftir að fyrtækin leyfðu lúsasmiti að verða stjórnlaust í sjókvíunum.

Þetta er mikilvægasta myndefni sem hefur náðst í baráttunni gegn sjókvíaeldi á laxi á heimsvísu á undanförnum árum.

Í viðtalinu segir m.a.

… „Ég stóð alltaf í þeirri meiningu að Ísland væri hreint land en svo sá maður að öll suðurströndin: Melrakkaslétta, Hornstrandir og fleiri staðir eru þaktir í rusli,“ segir Veiga. Eins og margir hafði hún í gegnum árin rekið augun í rusl úti í íslenskri náttúru en ekki gert neitt í málinu en það breyttist þarna. „Ég fór að tína rusl og eftir því sem ég gerði meira af því vatt það upp á sig. Það er virkilega góð tilfinning að fara á stað og hreinsa allt ruslið í burtu og horfa á staðinn þegar þú ert að fara,“ segir Veiga. „Það er góð tilfinning í hjartanu að þessi staður sé orðinn hreinn, en svo þarf maður að koma aftur og aftur.“

Birti fyrstu myndirnar frá íslensku sjókvíaeldi
Áhugi á hreinsun landsins var ekki það eina sem kviknaði hjá Veigu á ferðalaginu. Á róðri sínum sá hún að ekki var allt með feldu í sjókvíaeldi við Íslandsstrendur. „Ég hef verið mikið að gagnrýna það og mynda í kringum sjókvíaeldi,“ segir hún.

Samtök á borð við Icelandic Wildlife Fund og The North Atlantic Salmon Fund höfðu vakið athygli á því að pottur væri brotinn í sjókvíaeldi á Íslandi en engar myndir höfðu birst af aðstæðum fyrr en Veiga fór að mynda. „Þetta voru fyrstu myndirnar sem komu af íslensku sjókvíaeldi,“ segir Veiga.

Ekki hægt að þóknast öllum
Myndbirtingar Veigu af sjókvíaeldinu vöktu mikil viðbrögð, bæði góð og slæm. Sjálf er Veiga ættuð að vestan og vissi að myndir hennar myndu ólíklega falla í kramið í heimahögum hennar því það var meðal annars sjókvíaeldi í Patreksfirði. „Það er fólk sem hrósaði mér í hástert fyrir hringferðina og heimildarmyndina og það allt en það sér mig ekki í dag,“ tekur hún sem dæmi. „En svo er líka fullt af öðru fólki sem hrósar fyrir það sem ég hef gert. Þannig það er allur gangur á því.“

„Maður getur ekki þóknast öllum,“ segir Veiga. „Ég vil bara að náttúran njóti vafans og vernda hana. Hún á það skilið.“

Stóð á hliðarlínunni í trans baráttunni þar til falsfréttir fóru á flug
„Þegar ég fór hringinn langaði mig bara að sýna þjóðinni að trans fólk væri bara venjulegt fólk,“ segir Veiga. Hún er prívat manneskja og lítið fyrir að koma fram í viðtölum en stundum gerist þess þörf. „Ég hef verið á hliðarlínunni í þessari trans baráttu síðustu árin en svo hafa fordómar aukist alveg gífurlega.“

Veigu var ekki til setunnar boðið þegar falsfrétt fór á flug á samfélagsmiðlum eftir sundferð hennar. Hún sá fréttir af því að nakinn karlmaður hefði verið í sömu sundlaug og hún og sama dag og lagt saman tvo og tvo. „Þegar ég fór að fylgjast með fréttamiðlum, bæði fréttir.is og Vísi og fleiri stöðum, hvernig umræðan var að þróast hugsaði ég: Nei, þetta get ég ekki látið viðgangast.“

Umræðan eins og um samkynhneigða fyrir 30 árum
„Það fauk í mig og þetta var líka erfitt,“ segir Veiga. Hún fór í viðtöl og sagði rétt frá því sem hafði átt sér stað. „Ég man eftir því að hafa farið í sund þremur dögum seinna. Eftir 20 mínútur stóð ég upp og labbaði í burtu og fór heim. Ég gat ekki verið lengur í sundi, mér leið bara illa,“ segir hún. „Ég fór upp úr með tárin í augunum því mér fannst allir vera að horfa á mig.“

„Ég er samt búin að fá mjög góð viðbrögð eftir þessi viðtöl,“ segir Veiga. Það er þungbært að þurfa að fara í viðtöl til að segja frá lífi sínu, jafnvel mjög viðkvæmum og persónulegum hlutum, til að leiðrétta flug falsfrétta. „Það er alltaf verið að bendla okkur við kynferðisafbrotafólk,“ segir hún um trans fólk. „Við erum í sama pakka og samkynhneigðir voru fyrir 30 árum. Þannig þetta tekur líklega 10 ár í viðbót.“