Og svo er enn til fólk sem trúir því að sjókvíaeldisfyrirtækjunum sé annt um sjávarbyggðirnar.

Þetta er ekki og hefur aldrei verið góðgerðarstarfsemi. Sú saga hefur verið skrifuð í Noregi nú þegar. Störfin eru alltaf færri en var lofað og hagnaðurinn tekinn út annars staðar en starfsemin er stunduð.

Í frétt BB segir:

„Vesturbyggð hefur stefnt Arnarlax fyrir Héraðsdóm Vestfjarða og krefst greiðslu á ógreiddum hluta aflagjalds sem fyrirtækið neitar að greiða. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi í síðustu viku og verður aðalmeðferð í október í haust.

Fyrir tveimur árum lagði Vesturbyggð fram stefnuna vegna ágreinings um hækkun á aflagjaldi af lönduðum eldisfiski. Í apríl í fyrra greindi Bæjarins besta frá því að málavextir væru þeir að sveitarfélagið hafði hækkað í lok árs 2019 gjaldið úr 0,6% upp í 0,7% af aflaverðmæti en Arnarlax mótmælti hækkuninni og vildi ekki greiða hana. Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta mun Arctic Fish einnig hafa andmælt hækkuninni en greiddi hana með fyrirvara um lögmæti hennar.

Vesturbyggð telur hækkunina rúmast innan heimilda laganna en Arnarlax er á öndverðri skoðun. Heimild sveitarfélaga til þess að leggja aflagjald á afla er til þess að standa undir kostnaði sveitarfélagsins við aðstöðusköpun og þjónustu. Ekki er um skatt að ræða og má því gjaldið ekki vera umfram tilkostnað. …

Tálknafjarðarhreppur höfðaði einnig mál á hendur Arnarlax vegna vörugjalda af annars vegar flutningi á fóðri í pramma og hins vegar af dauðum laxi sem landað var í Tálknafjarðarhöfn. …

Arnarlax mótmælti kröfunni um vörugjöld af fóðri þar sem það sé flutt inn erlendis frá og losað beint í fóðurpramma við eldiskvíar. Fóðrið hafi því aldrei komið inn á hafnarsvæðið og falli ekki undir gjaldskrána. Varðandi dauða laxinn þá sé ekki um vöru að ræða enda verðlaus fiskur sem er landað til förgunar.“

 

Vesturbyggð stefnir Arnarlax