Veira sem valdið getur sjúkdómnum brisdrepi í fiskum hefur greinst í laxi úr sjókví Laxa fiskeldis ehf. í Reyðarfirði. Þetta kemur fram í frétt sem var að birtast á vef Matvælastofnunar.

Þetta er í fyrsta sinn sem IPN-veiran greinist í laxi á Íslandi.

“Þó svo veiran hafi greinst hefur sjúkdómurinn brisdrep (e. Infectious Pancreatic Necrosis – IPN) ekki komið upp í löxunum og hefur enn ekki komið upp á Íslandi. Brisdrep getur valdið tjóni í eldi, einkum í ferskvatnseldi á seiðum. Afföll eru algengust í eldi smáseiða í ferskvatni og í stálpuðum seiðum sem flutt eru smituð úr seiðastöð í sjókvíar. IPN-veiran hefur enn ekki greinst í ferskvatnseldi á Íslandi, en umfangsmikil vöktun á veirunni hófst í klak- og seiðastöðvum árið 1985, jafnt í eldisfiski sem villtum laxi.

IPN-veiran uppgötvaðist í kjölfar sýnatöku við reglubundið innra eftirlit hjá Löxum fiskeldi ehf. í Reyðarfirði. Laxinn sem veiran greindist í er heilbrigður og ástand laxa í kvíum almennt gott.”