Í frétt á vef RÚV í síðustu viku benti starfsmaður Vegagerðarinnar á að einn hlaðinn flutningabíll slíti vegum á við 10.000 fólksbíla. Þessir bílar eyðileggja vegi sem sagt í veldisvexti miðað við þyngd.

Í vor hefur Vegagerðin verið að fjarlægja bundið slitlag af vegum á Vestfjörðum og breyta í malarvegi. Fulltrúi Vegagerðarinnar nefndi sérstaklega þungaflutninga með sjókvíaeldislax sem ástæðu fyrir þessi hrikalega ástandi á svæðinu.

Að meðaltali óku hvern einasta dag í fyrra 3,8 fullfermdir þungaflutningabílar með sjókvíaeldislax um fjallvegi Vestfjarða. Það er á við umferð 13,9 milljón fólksbíla á ári. Auðvitað eyðileggur slík umferð þjóðvegakerfið.

Við vitum að þessi starfsemi skaðar umhverfið og lífríkið. Við vitum nú líka að undanfarinn áratug, þar sem sjókvíaeldi á laxi er mest við Ísland á sunnanverðum Vestfjörðum, hefur börnum fækkað, fjölskyldum hefur fækkað og karlar eru orðnir hlutfallslega fleiri en konur svo töluverður munar.

Þá sýna tölur fra Hagstofunni að íslenskum ríkisborgurum hefur farið jafnt og þétt fækkandi á sama svæði. Sú staðreynd er sérstaklega forvitnileg því hún afsannar þau meginrök hagsmunagæslusamtaka sjókvíaeldisfyrirtækja að sjókvíaeldi á laxi styrki búsetu í brothættum sjávarbyggðum.

Það væri fásinna að taka ekki með í dæmið við kostnað þjóðfélagsins af sjókvíaeldinu þær gríðarlegu skemmdir sem þungaflutningar á þessara einkafyrirtækja valda á vegum fyrir vestan.

Vegir sem ætlaðir eru til þungaflutninga af þessum skala, þurfa bæði betri undirbyggingu og betra slitlag. Að byggja vegi fyrir slíka bíla kostar gríðarlegar upphæðir. Örugglega mun meira en takmarkað auðlindagjaldi sem sjókvíaeldisfyrirtækin greiða nú í ríkissjóð.