Meðvirkni stofnana ríkisins með þessum skaðlega iðnaði er furðuleg. Nú hafa bæði Matvælastofnun og Umhverfisstofnun heimilað sjókvíaeldisfyrirtækinu Arctic Sea Farm að stytta hvíldartíma eldissvæða í Patreksfirði og Tálknafirði um helming. Í stað þess að svæðin séu hvíld að lágmarki sex mánuði áður en eldislax er settur aftur í sjókvíarnar er tíminn nú aðeins þrír mánuðir.

Kajakræðarinn og umhverfisverndarkonan Veiga Grétarsdóttir birti síðasta haust sláandi upptökur af sjávarbotni undir sjókvíaeldiskvíum í Dýrafirði. Botninn var þakinn hvítri leðju sem séfræðingar kalla „bakteríumottu“. Botndýr og gróður voru horfin enda ólíft þar sem þessi mengun fær að hlaðast upp.

Íslendingar eru að endurtaka sömu mistök og hafa verið gerð í öðrum löndum. Hér virðist enginn áhugi vera á að læra af sögu annarra þjóða.

Eins og Fréttablaðið greinir frá eru ekki allir ánægðir með þetta ástand. Landeigandi í Örlygshöfn, Marinó Thorlac­ius gagnrýnir sérstaklega matsskýrsluákvörðun Skipulagsstofnunar, sem sé órökstudd og „meingölluð í nánast öllum atriðum.“

„Marinó telur annað fráleitt en að breytt starfsleyfi fiskeldisfyrirtækisins verði látið sæta umhverfismati, en sífelldar undanþágur hafi verið veittar af fyrra umhverfismati, í þágu frekara fiskeldis í fjörðunum sem ógni í æ ríkari mæli lífríki á landareignum á svæðinu.

Ljóst sé að breytt starfsleyfi muni valda eitrunum út af Örlygshöfn og Tungurifi þar sem ljósar sandfjörur er að finna, en stofnanir á vegum ríkisins fari með því gegn dýravelferð og náttúruvernd á svæðinu.

Breytt starfsleyfi brjóti ekki einungis reglugerðir heldur fari það aukin heldur á svig við landslög.“