„Ég er algjörlega á móti því að þetta sé undir hatti SFS, algjörlega á móti því,“ segir Ólafur Rögnvaldsson, útgerðarmaður og einn af eigendum Hraðfrystihúss Hellissands í viðtali við Heimildina.

Það er rannsóknarefni hvernig stendur á því að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) ákváðu að taka að sér hagsmunagæslu fyrir sjókvíaeldisiðnaðinn hér á landi. Starfsemi þessara fyrirtækja beinlínis vegur að heilbrigði hafsins og velferð villtra sjávarlífvera, sem íslenskur sjávarútvegur á þó allt sitt undir að hlúð sé að með sjálfbærum hætti.

Sjókvíaeldisfyrirtækin borga aðeins brotabrot af því sem kostar að halda úti starfsemi SFS sem er nú orðið andlit þessa skaðlega iðnaðar.

Miklu fleiri útgerðarmenn en Ólafur eru örugglega á þeirri skoðun að við þetta ástand sé ekki búið lengur.

Umfjöllun Heimildarinnar:

Ólafur Rögnvaldsson, útgerðarmaður og einn af eigendum Hraðfrystihúss Hellissands, segir að slysasleppingin hjá laxeldisfyrirtækinu Arctic Fish í sumar hafi leitt til þess að hann sé orðinn mótfallinn greininni. Hraðfrystihúsið er í 18. sæti yfir stærstu útgerðir landsins miðað við kvóta.

„Ég hef verið mjög hlynntur sjókvíaeldi út af byggðarlegu sjónarmiði en þessir atburðir þarna fyrir vestan hafa deyft það algjörlega niður. Því miður hefur mér snúist algjörlega hugur. Ég er búinn að lifa og hrærast í sjávarútvegi alla tíð og ef við gerum einhver mistök þá er okkur hegnt fyrir einn, tveir og bingó. Þarna virðist þetta hafa verið algjörlega eftirlitslaust. Þarna var opin kví í þrjá mánuði. Þetta er ófyrirgefanlegt, algjörlega,“ segir Ólafur í samtali við Heimildina.

Aðspurður um hvort hann vilji að sjókvíaeldisfyrirtækin fari út úr SFS segir hann að hann telji að það væri rétt. „Ég er algjörlega á móti því að þetta sé undir hatti SFS, algjörlega á móti því. Eftir þessa slysasleppingu þá er ég bara ekkert hrifinn af því.“

Ólafur segir að hann telji að á endanum þá muni sjókvíaeldið líða undir lok og fara upp á land í staðinn fyrir að vera stundað í sjó. „Auðvitað endar þetta allt með því að þetta fer allt upp á land.“

Samkvæmt heimildum hefur farið fram óformleg umræða um það á vettvangi SFS að ekki sé æskilegt að sjókvíaeldisfyrirtækin séu hluti af samtökunum. Slysasleppingin hjá Arctic Fish spilar þar inn í þar sem framkvæmdastjóri samtakanna, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, hefur ítrekað þurft að svara fyrir gagnrýni á sjókvíaeldið í kjölfar hennar. Samtímis þurfti Heiðrún Lind líka að svara spurningum og verja hvalveiðar Hvals hf. og gagnrýni á þær. Þessi gagnrýna umræða um SFS getur smitast yfir á útgerðarfélögin, samkvæmt mati einhverra útgerðarmanna, og komið sér illa fyrir þau.

Heimildin sendi Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur spurningar um sjókvíaeldið og umræðu um þessa greina innan SFS en fékk ekki svör við þeim þrátt fyrir ítrekanir. Heiðrún Lind er nú á ferðalagi um landið að ræða um sjávarútveg undir yfirskriftinni: Hvað hefur sjávarútvegur gert fyrir þig? Heiðrún Lind var á Ólafsvík á Snæfellsnesi fyrr í þessari viku.