Þorkell Sigurlaugsson er reynslubolti úr íslensku atvinnulífi og stjórnmálum. Í meðfylgjandi grein fer hann yfir efni bókarinnar The New Fish og áhrif lesturs hennar á sig. Í grein Þorkels segir meðal annars:

“Um 35% af laxi sem framleiddur er í Noregi er í eigu útlendinga og helmingur af hagnaðinum fer úr landi, en mengunin að sjálfsögðu skilin eftir heima. Þeir sem reka fyrirtækin leggja áherslu á hversu mikla atvinnu þau skapa, fiskeldi og sláturhúsin eru áhugaverðir vinnustaðir
En fyrir hverja eru þetta áhugaverðir vinnustaðir. Í sláturhúsum SalMar er aðeins þriðjungur starfsmanna Norðmenn. Í Noregi hafa aftur á móti 37 Norðmenn orðið milljarðamæringa (í norskum krónum) á síðasta áratug.”

Hér eiga erlend félög um og yfir 90 prósent af sjókvíaeldisfyrirtækjunum.

Greinin birtist á Vísi:

Hinn nýi fiskur (The New Fish)
Það eru ekki margar bækur um fiskeldi sem hafa haft jafn sterk áhrif á mig og bókin The New Fish (The Truth about Farmed Salmon and the Consequences We Can No Longer Ignore). Bókin er rituð af þeim Simon Sætre, sem var blaðamaður hjá vikublaðinu Morgenbladet, og höfundur fimm bóka og svo Kjetil Östli sem er einnig blaðamaður og handhafi Brage verðlauna bókaútgefenda og höfundur og ritstjóri Harvest Magazine. Bókin fjallar all ítarlega um tímabil frá bernskuskeiði laxeldis aðallega á áttunda áratugi síðustu aldar til ársins 2021. Bókin var þýdd á ensku í byrjun þessa árs. Hvað gerist þegar þú framleiðir nýtt afbrigði af fiski og sleppir honum í sjóinn. Getur verið að það taki aðeins örfá ár í viðbót að útrýma villta laxinum og til verður nýtt afbrigði einhvers konar Frankenstein nútímans svo notuð sé samlíking höfunda? Bókin fjallar mikið um þessa spurningu og hvernig til mun takast að fikta með þessum hætti í lífríki villta laxins.

Læsilegur og lifandi texti á 360 blaðsíðum í 30 köflum
Bókin dregur lesandann áfram nánast eins og í spennusögu og er á sinn hátt hrollvekja um afleiðingar sjókvíaeldisins. Svo sannarlega ekki skáldsaga enda afleiðingar slysasleppinga sífellt betur að koma í ljós. Vandamálið erlendis fór vaxandi og þegar í kringum 1988-1989 var orðið ljóst hvað ástandið var orðið alvarlegt. Í ánni OSA nálægt Bergen er um helmingur hænga eldisfiskur, en sums staðar er þessi tala mun lægri en í Noregi. Á Írlandi er þessi tala 28% en í Skotlandi 20%. Noregur er með um helming þeirra 3 milljón tonna af eldislaxi sem framleiddur er í heiminum og hefur vaxið úr 2 milljónum tonna á 10 árum. Á sama tíma og eldislaxinum fjölgar fækkar villta laxinum og á 30 ára tímabili frá 1986-2006 hafði honum fækkað um 80%.

Borðið meiri fisk, en er eldislax heilsusamlegur?
Vísindamenn hófu rannsóknir á því hvernig mætti auka matvælaframleiðslu á próteini til að fæða vaxandi þörf fjölgandi mannkyns. Þróuðu með rannsóknum nýja tegund af laxi sem var feitari og óx hraðar. Þá var ekki aftur snúið sjókvíaeldi hófst. Vandamálin létu ekki á sér standa þegar þessi nýi fiskur var alinn. Sýkingar komu upp og þá þurfti að þróa bóluefni. Lús var sífellt ágengari og þróa var sífellt sterkari og nýrri lúsalyf. Fiskurinn var í upphafi ekki bleikur heldur grár eða fölur og ekki mjög girnilegur. Úr því varð að bæta með litarefnum t.d. í fóðrinu. Fóðurskortur þ.e. hráefni úr uppsjávarfiskum fór þverrandi og farið var að nota sojamjöl blandað alls konar efnum, misjafnlega góðum fyrir eldisfiskinn. Þegar allt þetta fer saman vöknuðu spurningar um það hversu hollur þessi eldisfiskur væri. Um það er fjallað í einum kafla bókarinnar.

Lúsafaraldur herjar á eldislaxinn
Laxalús í eldislaxi hefur verið vandamál í áratugi í Noregi. „Hver heyrir það þegar fiskurinn grætur“. Fiskar geta litið út fyrir að vera heimskir og tilfinningalausir, en þeir finna fyrir sársauka ekki síst þegar lúsin étur sig inn í holdið og saltur sjórinn berst í sárin. Bakteríur berast síðan í sárin.

Í bókinni eru talin upp öll þau eiturefni sem notuð eru til að kljást við lúsina. Fólk spyr sig eðlilega hvaða áhrif þetta hefur á humar og rækju, þorsk í fjörðum landsins og önnur sjávardýr. Einn kafli í bókinni fjallar um notkun á alls konar efnum sem sett er í fiskifóður, en var að lokum bannað að nota í laxafóður þótt engar öruggar sannanir lægju fyrir skaðsemi þess.

Vandamálin í Chile
Í bókinni er lýst erfiðleikunum sem hafa orðið í Chile, en þar í landi er næst mesta framleiðsla á eldislaxi á eftir Norðmönnum. Sýkingar hafa komið upp í Chile t.d. svokölluð ISA sýking (Infectious salmon anaemia). Lýst er átakanlegu viðtali við Karl Samsing sem var reyndar síðar ásakaður um að hafa misnotaða aðstöðu sína innan fóðurframleiðandans EWOS og framkvæmdastjórn Cermaq laxeldisfyrirtækisins. Um ISA sýkinguna sagði hann. „Þetta var allt okkur að kenna. Þéttleikinn í kvíunum var of mikill. Fyrst voru þeir með t.d. 1 milljón fiska og það virtist ganga ágætlega, svo var farið í 2 milljónir og reynum svo 3 milljónir.“ Hann kallaði þetta gullaldartímabilið. Mikill hagnaður safnaðist upp. Síðan þagnaði hann í smá stund og sagði svo: „ Græðgin var of mikil. Við fórum of langt. Við vanmátum náttúruna !“

Kjúklingar sjávarins
Protein kemur úr kjúklingi, en ekki síður úr sjávarafurðum þar með talið „kjúklingi hafsins“ eins og laxinn hefur stundum verið kallaður. Í Noregi er einn gúrú, Torger Reve hámenntaður hagfræðingur f.v. rektor BI háskólans. Hann telur að fiskeldi (lagareldi) verði eitt af þeim þremur sviðum sem Norðmenn geta státað af sem alþjóðleg forystuþjóð hvað þekkingu varðar og það er fiskeldi, olíuvinnsla og sjóflutningar (e.shipping). Í bókinni er mikið fjallað um spádóma Norðmanna um framtíð fiskeldis og í skýrslu sem gerð var í tíð Lisbeth Berg-Hansen sem sjávarútvegsráðaherra árið 2013 var því spáð að árið 2050 yrði tekjur af fiskeldi um 550 milljarðar NOK eða um 7.000 milljarðar ISK eða 6 sinnum meira en 2021 þegar þessi bók var rituð.

Algengt er að heyra að laxeldi í sjókvíum geti leyst stóran hluta af fæðuvandamálum heimsins. Framlag Norðmanna á þessu sviði stuðlar að „grænni heim“ sé bæði umhverfisvænt og kolefnissporið sé lítið. Þetta sé liður í „Bláu byltingunni“ þar sem vísað er til aukins fiskeldis í víðum skilningi þess orðs sem andstæða við „Grænu byltinguna“ sem snýst fyrst og fremst um landbúnað. Lang stærsti hluti fiskeldis fer fram í Asíu og laxeldi skiptir þar afar litlu máli.

Þess misskilnings gætir að laxeldi sé hagkvæmur hvað þá hagkvæmasti kosturinn til að leysa fæðuþörf heimsins. Lax hefur mikla fæðuþörf og sem dæmi þá er áætlað að það þurfi 1,39 kíló af fiskafóðri til að framleiða hvert kíló af laxi. Margar fisktegundir sem eru nýttar til fóðurframleiðslu gætu nýst til manneldis. Það gildir um loðnu, makríl, sardínur og aðrar smáfiskategundir sem fara í framleiðslu á fiskimjöli. Í fátækum ríkjum Afríku og á Indlandi er margvísleg spilling, þrælahald og ólögleg, eftirlitslaus starfsemi í verksmiðjum og verksmiðjuskipum sem vinnur úr þessu sjávarfangi. Skortur á fiskimjöli leiðir síðan til landbrots og eyðingu skóga t.d. í Brasilíu til að fiskafóðurs.

Samkvæmt rannsókn sem fyrirtækið birti árið 2020 þá hefur laxeldi í sjókvíum allt að fimm sinnum meira kolefnisspor en villtur fiskur og villtur fiskur á allan

SINTEF er eitt elsta og virtasta rannsóknarfyrirtæki í Evrópu og er með höfuðstöðvar í Þrándheimi og með um 2.200 starfsmenn. Samkvæmt rannsókn sem fyrirtækið birti árið 2020 þá hefur laxeldi í sjókvíum allt að fimm sinnum meira kolefnisspor en villtur fiskur og villtur fiskur á allan hátt umhverfisvænni afurð. Þetta á t.d. við um þorsk, ýsu, ufsa, síld og makríl, eins og sniðið að íslenskum sjávarútvegi. Ástæðan er m.a. vaxandi fiskidauði í sjókvíaeldi, lúsafár, lakari fóðurnýting og mun hærra hlutfall fóðurs sem kemur úr plönturíkinu. Sojabaunir eru t.d. ræktaðar fjarri laxeldistöðvum svo sem í suður Ameríku. Mikil landnotkun er ekki umhverfisvæn og langar flutningsleiðir fóðurs vega þungt þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda.

Kanadamenn berjast gegn Norðmönnum
Skammt norðan við Vancouver í Kanada er eyjan Alert Bay. Þar höfðu norsku fyrirtækin Cermaq og Marine Harvest (nú Mowi) komið sér fyrir með laxeldi. Í bókinni er kafli þar sem heimamenn og umhverfisverndarsinnar börðust gegn innrás Norðmanna inn á svæðið og náðu góðum árangri. Forsprakki heimamanna Chief Ernest Alfred virkjaði heimamenn í mótmælum gegn laxeldi í opnum sjókvíum og þeirri sýkingu, óheilbrigða fiskeldi og „skít“ sem Norðmenn höfðu sent þeim. Eldisfiskur blandaðist saman við laxinn á vesturströnd Kanada. Þegar höfundar bókarinnar komu á staðinn var augljóst að heimamenn höfðu andstyggð á sjókvíaeldi, en þorðu ekki að mótmæla. Margir höfðu atvinnu við þessa starfsemi.

Chief Ernest sagði. „Það er eitthvað sérstakt við Noreg sem ég átta mig ekki á. Þið fjárfestið í grænni umhverfisvænni tækni og orku. Hvernig geta fyrirtæki frá Noregi hegðað sér svona. Þeir framleiða og ala nýja laxfiskategund í opnum sjókvíum nálægt laxveiðiánum okkar, þar sem er villtur lax. Þeir menga landið okkar og sjóinn. Þessu þarf að linna. Þess vegna hendum við þeim út.“

Fyrirtækin skipta um eigendur og fjarlægjast uppruna sínum
Í bókinni er því lýst hvernig færri og færri fyrirtæki eru í eigu heimamanna eða Norðmanna sjálfra. Erlendir aðilar og ýmsir fjárfestar hafa keypt þau á markaði. Fyrirtækin hafa orðið færri og færri. Fjögur fyrirtæki eru núna með helming af laxeldinu í Noregi og þau eru jafnframt þau stærstu í heimi. Það eru Mowi, Lerøy, SalMar og Cermaq þar á eftir kemur AlquaChile, Canadian Cook Aquaculture og að lokum hið færeyska Bakkaforst. Stærstu fyrirtækin eins og t.d. Mowi er í eigu Geveran Trading á Kýpur til að forðast skatta og svo t.d. American bank State Street Corporation, JP Morgan, Citibank, Clearstream og Folketrygfondet. Um 35% af laxi sem framleiddur er í Noregi er í eigu útlendinga og helmingur af hagnaðinum fer úr landi, en mengunin að sjálfsögðu skilin eftir heima. Þeir sem reka fyrirtækin leggja áherslu á hversu mikla atvinnu þau skapa, fiskeldi og sláturhúsin eru áhugaverðir vinnustaðir

En fyrir hverja eru þetta áhugaverðir vinnustaðir. Í sláturhúsum SalMar er aðeins þriðjungur starfsmanna Norðmenn. Í Noregi hafa aftur á móti 37 Norðmenn orðið milljarðamæringa (í norskum krónum) á síðasta áratug og dæmisagan um einn í bókinni minnti á þá félaga í EXIT þáttunum þótt talsvert ýkt útgáfa sé í þáttunum.

Eftir fimm áratugi er laxeldi í sjókvíum ennþá „flókin líffræðileg tilraun til að búa til nýjan fisk“ er haft eftir Harald Skjervold sem var prófessor og í raun frumkvöðull að stofnun „Norwegian Institute for Aquaculture Research“. Áskorunin er fyrir laxeldisbændur að finna sér tilverurétt í samfélaginu í sátt og í takt við náttúruna og þjóðfélagið í heild, alveg eins og bændur, sjómenn og iðnaður hefur þurft að gera. Það er ekki fyrr en þá að laxeldi getur orðið ásættanlega atvinnustarfsemi fyrir okkur Íslendinga alveg eins Frakkar geta verið stoltir af sinni vínrækt. Líklega verður slíkt afar erfitt nema hætta að hugsa um magn, heldur gæði, en ekki beita norskum aðferðum undir stjórn og eignarhaldi Norðmanna.

Í næstu grein sem mun koma eftir nokkra daga mun ég fjalla um þessi mál út frá áhrifum á íslensk fyrirtæki sem eru enn og verða líklega áfram að stórum hluta í eigu Norðmanna og annarra þjóða en Íslendinga. Sóðaskapurinn er nú þegar farin að hafa áhrif hér á landi og mun halda áfram nema gerðar verði róttækar breytingar á sjókvíaeldi í opnum kvíum og dregið verulega úr því og því vonandi hætt, nema tryggt sé að gæði, dýravernd og sjálfbærni sé gætt og eldið skaði ekki villta laxastofna.