„Tölurnar sem eru tilkynntar eru ekki í samræmi við raunverulegan fjölda sem sleppur,“ segir Frank Bakke-Jensen, stjórnandi Norsku Fiskistofunnar í viðtali við Dagens Næringsliv.

Bakke-Jensen bendir þessu til staðfestingar á fyrirliggjandi dæmi um að sjókvíaeldisfyrirtæki hafi tilkynnt um strok en síðar hafi komið í ljós að meira var af eldislaxi í sjókvíum en fyrirtækin höfðu áður skráð að sett hefði verið í þær við upphaf eldislotunnar.

„Eitt dæmið sýnir að fyrirtæki sagðist vera með 168.000 eldislaxa í sjókví. Eftir að tilkynnti var um að fiskur hefði sloppið var talið upp úr kvínni. Kom þá í ljós að þar voru 190.000 eldislaxar.“

Þetta er sem sagt staðan í norska sjókvíaeldisiðnaðinum að sögn Fiskistofustjórans Bakke-Jensen, en áður en hann tók við því embætti 2020 var hann meðal annars ráðherra Evrópumála og varnarmálaráðherra Noregs.

Óþarfi er að efast um að ástandið sé eitthvað skárra a Íslandi. Í fyrsta lagi eru sjókvíaeldisfyrirtækin hér undir stjórn og í meirihlutaeigu fyrirtækja sem hegða sér svona heimafyrir. Í öðru lagi hafa komið fram vísbendingar um að hér sé meira í sjókvíunum en fyrirtækin hafa heimild fyrir. Þar á meðal mun meiri fóðurnotkun en gert var ráð fyrir við burðarþolsmat.

Þetta er auðvitað alvarleg brot á leyfum. Fleiri fiskar valda til dæmis bæði meiri mengun og útbreiddari erfðablöndun, því í áhættumati um þessa starfsemi er gert ráð fyrir að fjöldi sleppifisks sé hlufall af þeim fjölda sem er í kvíunum.

Sjá umfjöllun Dagens Næringsliv