Hér er lítil tímalína sem varpar ljósi á hvernig norsku sjókvíaeldisfyrirtækin hafa sótt sér fúsa þjóna úr stjórnmálastétt Íslands.

Árið er 2017 og Daníel Jakobsson er bæjarrstjórnarfulltrúi í Ísafjarðarbæ og fyrrverandi bæjarstjóri:

„Mér finnst það ekki koma til greina að reisa stóriðju inni í friðlandi, bara engan veginn,“ segir Daníel Jakobsson spurður um hugmyndir um laxeldi í sjókvíum inni á Jökulfjörðum. Vísir: “Stóriðja á ekki heima inni í friðlandi.”

Árið 2019 tekur Daníel sér frí frá störfum sínum sem formaður bæjarráðs Ísafjarðar og fer til starfa hjá norska sjókvíaeldisfyrirtækinu Norway Royal Salmon, móðurfélagi Arctic Fish. Stundin: “Formaður bæjarráðs Ísafjarðar ráðinn til norsks laxeldisfyrirtækis.”

Árið 2020 er Daníel snúinn aftur sem formaður bæjarráðs Ísafjarðar og hefur þá tekið U-beygju í andstöðu sinni til „stóriðju“ í Jökulfjörðum og segir í samtali við héraðsfréttamiðilinn Bæjarins besta að hann telji ekki „tímabært að svo stöddu að banna laxeldi í Jökulfjörðum“ og að hann vilji fá burðarþolsmat og áhættumat fyrir svæðið áður en lengra er haldið. Bæjarins Besta: “Vill áhættumat og burðarþolsmat fyrir Jökulfirði.”

Nokkrum mánuðum síðar sama ár er Daníel ráðinn til starfa hjá Arctic Fish sem ráðgjafi í sérverkefnum. Hann situr áfram sem formaður bæjarráðs. Vísir: “Fólk verður að hafa fyrir salti í grautinn.”

2022 er Daníel ráðinn framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish.

Svona gerast kaupin á eyrinni í þessum skaðlega iðnaði.