Fyrrum landsliðsmennirnir og nú handboltaþjálfararnir Guðmundur Þórður Guðmundsson og Hannes Jón Jónsson eru meðal þeirra sem fordæma harðlega þessa sorglegu ákvörðun stjórnar HSÍ.

Síðast þegar Arnarlax samdi við landslið þá gengu allir liðsmenn þess úr liðinu í mótmælaskyni og samningnum var rift.

Kokkalandsliðið stóð með vernd náttúru og lífríki Íslands. HSÍ hefur tekið ákvörðun um að gera það ekki.

Í umfjöllun DV segir:

Guðmundur Þ. Guðmundsson fyrrum þjálfari íslenska handboltalandsliðsins segir nýjan samning HSÍ við Arnarlax vera hneyksli. …

„Þessi samningur milli HSÍ og Arnarlax er regin hneyksli og sýnir stórkostlegan dómgreindarskort af hálfu formanns HSÍ, Guðmundar B. Ólafssonar,“ segir Guðmundur í færslu sinni á Facebook í dag. …

Guðmundur ritar um það sem gerst hefur hjá fyrirtækinu sem HSÍ fer nú í samstarf við. „Arnarlax var meðal annars fyrir nokkru síðan sektað af Matvælastofnun að upphæð 120 milljón króna fyrir að hafa brotið gegn skyldu um að tilkynna um strok á fiski og beita sér fyrir veiðum á strokfiski. Arnarlax sýndi þar fullkomið og vítavert aðgæsluleysi til skaða fyrir íslenska náttúru.“

Arnarlax er meðal annars með sjókvíaeldi sem Guðmundur fer ekki fögrum orðum um. „Þetta sjókvíaeldi er hörmulegur og mengandi iðnaður sem mun ganga af íslenskum náttúrulegum laxastofni dauðum.“

Hann segir að hann hefði aldrei tekið þátt í þessu. „Að þiggja peninga frá þessu fyrirtæki sem vill nýta sér íslenska landslið til að lappa upp á dapurlega ímynd sína er óskiljanlegt. Eitt get ég sagt að ég hefði aldrei samþykkt sem þjálfari landsliðsins á sínum tíma að bera slíka auglýsingu.“