Tillögur starfshópsins eru að ýmsu leyti til bóta, enda núverandi reglusetning afar takmörkuð. Það eina sem dugir að mati okkar hjá Íslenska náttúruverndarsjóðnum er hins vegar að sjókvíaeldi i opnum netapokum verði hætt. Það verði gert með því að hætta útgáfu nýrra leyfa og setja inn sólarlagsákvæði um gildandi leyfi.

Vísir fjallaði ítarlega um skýrslu starfshóps um strok eldislaxa og ræddi meðal annars við Jón Kaldal:

„Lengi verið draumur þeirra sem eru í þessum iðnaði og svo stjórnvalda að það sé hægt að leysa vanda starfseminnar með tækninni. En tæknin sem notuð er í dag, opnir netapokar, er í eðli sínu þannig að það er ekki hægt að koma í veg fyrir að netin rofni. Það er bara spurning hvenær en ekki hvort.“…

Spurður hvort skilja megi orð hans svo að skýrsla starfshópsins sé þá ekki uppá marga fiska segir Jón það mjög jákvætt að eftirlit sé hert, sett reglugerð um stærri seyði, og viðurlög hert.

„Allt er þetta jákvætt en það eina sem dugir að mati okkar hjá íslenska náttúruverndarsjóðnum er að starfseminni í þessari mynd verði hætt. Það verði gert með því að hætta útgáfu nýrra leyfa og setja inn sólarlagsákvæði um gildandi leyfi.“

Þá þannig að starfseminni verði hætt í áföngum. Jón vill ekki svara spurningu um hvort meta megi skýrsluna sem lið í undanbrögðum stjórnvalda sem vilji ekki setja þessari atvinnustarfsemi úti á landi stólinn fyrir dyrnar.

„Tjahhh, það er þessi draumur um tæknina. Sko, ef við setjum þetta í samhengi er Arnarlax núna með 120 milljóna króna sekt á sér vegna þess að fyrirtækið gat ekki gert grein fyrir afdrifum rúmlega 80 þúsund eldislaxa,“ segir Jón og hefur þetta sem dæmi um að engin leið sé að henda reiður á stroki eldislaxa.  …

„Arnarlax missti þetta úr einni sjókví fyrir vestan. Í þeirri sjókví átti að hafa verið fylgst með löxunum með myndavélum. Þrátt fyrir þetta áttaði fyrirtækið sig ekki á því hversu margir laxar hefðu sloppið fyrr en mörgum mörgum mánuðum eftir atburðinn.“

Jón segir þannig að í skýrsluna og í allt lagaverkið vandi vernd fyrir villtan lax sem ekki á heimkynni í skilgreindum veiðiám. Jón telur það hreinlega vera svo að þeir sem sitji á löggjafarþinginu skorti skilning á þessum mikilvæga þætti. Hann tali fyrir náttúruvernd, ekki rétti veiðileyfahafa sem sé annað.

„Þetta er hlunnindadrifin löggjöf. Ástæðan er sú að í samráði stjórnvalda hefur fyrst og fremst og eingöngu verið rætt við veiðirétthafa. En horft fram hjá sjálfstæðum tilverurétti villtra laxa í ám sem ekki eru skilgreindar veiðiár. Þetta eru ekki náttúruverndarlög heldur lög til að vernda veiðirétthafa.“

Jón telur þetta einn megin veikleika núgildandi laga. …

Jón segir að það sé sem margir virðist ekki skilja að laxastofnar eru ekki einungis í ám þar sem seld eru veiðileyfi. Þær eru miklu fleiri, sumar stuttar og því ekki nein veiðifélög um veiði þar. En þar hafi þó veiðar verið stundaðar árum saman.

„Allt ár sem eru með litla laxastofna sem hafa verið þarna í tíu þúsund ár að aðlagast aðstæðum, löngu áður en við komum til Íslands. Vísindamenn telja að þetta séu oft stofnar sem eru sérstakir fyrir fjörð og flakka á milli þessara litlu vatnsafla.“

Og Jón er afdráttarlaus í tali og dregur upp dökka mynd:

„Eins og sjókvíaeldið er núna þá er algerlega hundrað prósent víst að það mun eyðileggja þessa villtu stofna á nokkrum áratugum.
Þessa vernd vantar í núverandi lög. Það er ekkert til í núverandi lögum sem er hneisa.“

Ljóst er að Jón telur pólitíkusa eiga nokkuð í land ef þeir eigi að rísa undir nafni sem náttúruverndarsinnar.