Það sem þáverandi sérfræðingar MAST og fulltrúar sjókvíaeldisfyrirtækjanna sögðu: „Lúsin getur á engan hátt orðið sambærilegt vandamál og hjá nágrannaþjóðum okkar.“

Það sem gerðist: Gríðarlegur fjöldi laxalúsa í sjókvíum Arnarlax og Arctic Fish í Tálknafirði og sár af þeirra völdum á eldislaxi eru án fordæma í öllum samanburði við önnur lönd.

Í umfjöllun Heimildarinnar segir m.a.

Meira en 100 laxalýs fundust á sumum af eldislöxunum hjá Arctic Fish í Tálknafirði sem drápust eða þurfti að farga vegna fyrsta lúsafaraldursins sem komið hefur upp í íslensku sjókvíaeldi. Þetta kemur fram í tölum sem Matvælastofnun (MAST) sendi Heimildinni á grundvelli gagnabeiðni. Laxalýs á fiskum í kvíum eru taldar reglulega; starfsmenn eldisfyrirtækja háfa þá laxana, svæfa þá, telja lýsnar á þeim og setja svo aftur í sjóinn.

Um er að ræða tölur um fjölda lúsa úr sex sjókvíum Arctic Fish í Hvannadal í Tálknafirði. Þessar tölur eru meðal annars frá mælingum í viku 40, segir í svari MAST, eða frá 2. til 8. október. Þá fundust rúmlega 96 lýs á löxunum að meðaltali. Laxalúsin étur roðið á laxinum þannig að sár myndast og bakteríur komast í sárin og stækka þau; laxarnir verða svo veikburða vegna þessa og drepast á endanum ef þeim er ekki slátrað áður en til þess kemur.

Aldrei áður hafa viðlíka tölur um fjölda laxalúsa komið upp við athuganir á eldislöxum í sjókvíum hér við land. Hver ástæðan er fyrir þessum mikla fjölda lúsa á löxunum liggur ekki fyrir. Samtals drápust, eða var slátrað, um milljón eldislaxar í lúsafaraldrinum hjá Arctic Fish og Arnarlaxi og var allur fiskurinn settur í dýrafóður. Meðalstærð laxanna var um eitt kíló og var megnið af fisknum sett í sjókvíarnar í fyrra.

MAST sendi Heimildinni einnig tölur um laxalúsina sem kom upp hjá Arnarlaxi í Laugardal í Tálknafirði í haust. Arnarlax þurfti einnig að farga öllum laxi sem var í sex kvíum fyrirtækisins þar. Tölurnar um laxalúsina hjá Arnarlaxi voru nokkuð lægri en hjá Arctic Fish en í viku 41, frá 9. til 15. október, nam fjöldi lúsa á hverjum fiski 62,49.

Eitt af því sem er áhugavert við tölurnar frá Matvælastofnun er að langmest hlutfall fannst af lús á hreyfanlegu stigi svokölluðu, eða unglingastigi. Laxalús er mæld á löxum á þremur stigum vaxtar: Á lirfustiginu; á hreyfanlegu stigi eða unglingastigi og loks á fullorðinsstiginu, þegar hún hefur náð fullri stærð. Laxalúsin sést á öllum þessum þroskastigum, án smásjár.

Yfirleitt þegar greint er frá tölum um laxalús í laxeldi er bara talað um laxalús sem finnst á fullorðinsstiginu. Laxalúsin er talin valda mestum skaða á því stigi. Þetta er hins vegar ekki það sem gerðist í þessu tilfelli hjá Artic Fish og Arnarlaxi heldur olli laxalúsin mesta skaðanum á unglingastiginu, þar sem langmest fannst af henni á því. Í viku 40 fundust til dæmis 5,58 fullorðnar laxalýs að meðaltali á löxunum hjá Arctic Fish í Tálknafirði en 70,54 lýs á unglingastigi.

Þessi mikli fjöldi laxalúsar á unglingastiginu er ráðgáta í þessum lúsafaraldri. Samkvæmt heimildum liggur ekki fyrir af hverju þessi mikli fjöldi lúsa í Tálknafirði á þessu stigi stafar. …