Gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir fárra einstaklinga skýra ákafann að baki því að þröngva í gegn leyfum fyrir sjókvíaeldi í Seyðisfirði þvert á vilja afgerandi meirihluta heimafólks.

Tíu þúsund tonna framleiðslukvóti fyrir lax í sjókvíum myndu skila 30 til 35 milljörðum íslenskra króna með uppboði i Noregi. Hér greiða fyrirtækin brotabrot af þeirri upphæð.

Atvinnusköpunin sem lofað er hefur ævinlega reynst tálsýn ein, eins og Jón bendir á:

„Stór hluti af störfum í sjókvíaeldi, sem áður þurfti að sinna á staðnum, er nú fjarstýrt af fólki sem situr við tölvuskjái. Fiskeldi Austfjarða kynnti árið 2018 áætlanir um að fjarstýra fóðrun eldislaxa í austfirskum fjörðum frá Noregi (þar sem móðurfélagið er staðsett). Þegar vakin var athygli á þessu í fjölmiðlum hætti félagið við, enda hvarf þar gulrótin sem fyrirtækið dinglar framan í sveitarstjórnarfólkið og aðra bláeyga stjórnmálamenn um að þessi iðnaður snúist um að skapa störf fyrir íbúa í sjávarbyggðum. …

Þessi saga hefur öll gerst í Noregi áður og um hana verið skrifaðar bækur og greinar. Störfin hafa alltaf orðið miklu færri en var lofað og gróðinn tekinn út annars staðar en í héraði.

Árið 1987 störfuðu til dæmis um fjögur þúsund manns við sjókvíaeldi í Noregi og þá var framleiðslan var 46 þúsund tonn.Árið 2018 hafði framleiðslan 28-faldast, var komin í 1,3 milljónir tonna, en störfin voru þó aðeins um 7.500. Þar af sinnti erlent farandverkafólk á lágmarkslaunum stórum hluta þeirra, ekki heimafólk á staðnum.

Allt þetta liggur fyrir. Forsvarsmenn Fiskeldis Austfjarða vilja ólmir að Íslendingar endurtaki sömu mistökin. Þeir munu líka græða persónulega á því. Hvorki við í Íslenska náttúruverndarsjóðnum né íbúar á Seyðisfirði ætlum að sitja þegjandi undir þeim áformum. Samstaðan á fundinum á Herðubreið var alger.“