Við fengum þennan stutta pistil eftir Sigurjón Pálsson sendan og endurbirtum hér, enda kjarnar hann vel hræsni sjókvíaeldisfyrirtækjanna.

„Það stendur ekki steinn yfir steini af því sem Svein Ove Tveiten, forstjóri Arctic Fish, segir í viðtali.

Hann kveðst algjörlega miður sín yfir því að svona nokkuð geti gerst og að allt verði gert til að koma í veg fyrir að svona lagað gerist aftur.

Nefnir svo aðferð til að ná löxunum sem margreynd sé í Noregi með góðum árangri – sem segir manni auðvitað að kvíar þeirra hafi aldrei haldið laxi og þar með að loforð mannsins um að allt verði gert til að koma í veg fyrir laxaflótta í framtíðinni sé margþvælt, útvatnað og einskis virði.

Því var líka heitið þegar þessi starfsemi var leyfð og ekki við það staðið þá eins og nú er margsinnis komið í ljós.

Rökrétt niðurstaðan getur ekki verið önnur en sú að laxasjókvíar hans – eða annarra – haldi ekki laxi, hafi aldrei haldið laxi og muni ekki halda laxi í framtíðinni.

Út frá þeim veruleika þarf að stíga næstu skref varðandi reglur um sjókvíaeldi hér við strendur og algjörlega ljóst að verðmæti villtrar náttúru Íslands hlýtur að eiga að njóta vafans héðan í frá, ekki hagsmunir norskra fiskeldisfyrirtækja sem vísað hefur verið heiman frá sér vegna skaðans sem þau hafa valdið þar.“

Takk Sigurjón!

Ljósmyndina tók Veiga Grétarsdóttir hér við land.