Við skorum á Alþingi Íslands að hafna frumvarpi Matvælaráðherra um lagareldi. Kafli þess um sjókvíeldi á laxi veldur gríðarlegum vonbrigðum.
Frumvarpið mætir ekki lágmarkskröfum um vernd umhverfis og lífríkis Íslands og heimilar að auki sjókvíaeldisfyrirtækjunum að fara áfram hræðilega með eldisdýrin sín.

Þetta er frumvarp sniðið að hagsmunum fyrirtækjanna.

Við segjum nei.

Í umfjöllun Heimildarinnar kemur m.a. fram:

Viðurlög við slysasleppingum á eldislaxi voru meiri í lagafrumvarpi matvælaráðherra þegar það var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og áttu laxeldisfyrirtæki að geta misst hluta af framleiðslukvóta sínum ef slysasleppingar á eldislaxi kæmu upp hjá þeim. Í staðinn eiga þau nú að greiða fjársektir. Í öðrum tilfellum er búið að fjarlægja viðurlög alveg við tilteknum slysum og munu laxeldisfyrirtækin ekki einu sinni þurfa að greiða fjársektir.

Í 48. grein frumvarpsins sagði meðal annars um svokallaðan „þekktan strokatburð“, það er að segja þegar strokinn eldislax finnst og er rakinn til tiltekins fyrirtækis: „Fyrir hvern strokinn frjóan lax sem finnst í ám sem eru hluti af áhættumati erfðablöndunar, skal laxahlutur viðkomandi rekstraraðila skerðast sem nemur hlutfalli 500 fiska af heildarlaxafjölda á þeim tíma þegar strokatburður á sér stað.“

Búið er að breyta þessari grein frumvarpsins þannig að nú skulu fyrirtækin greiða sektir: „Fyrir hvern strokinn frjóan lax sem finnst í ám sem eru hluti af áhættumati erfðablöndunar og sem stafar frá rekstrarleyfishafa, skal viðkomandi rekstrarleyfishafi greiða sekt til ríkissjóðs sem nemur 5.000.000 kr.“

Í 49. grein frumvarpsins, eins og það var lagt fram í samráðsgátt, áttu laxeldisfyrirtækin einnig að geta misst framleiðslukvóta á eldislaxi í svokölluðum „óþekktum strokatburðum“, það er að segja þegar mismunur er á þeim fjölda eldislaxa sem eru í kví þegar talið er upp úr og þegar seiði voru sett í hana. Þetta eru tilfelli þar sem ljóst er að eldislaxar hafa sloppið úr kvíum en ekki liggur fyrir hvert þeir fóru þar sem þeir hafa ekki fundist. Engin viðurlög eru lengur við þess konar slysum í frumvarpinu um laxeldi, hvorki kvótamissir né fjársektir. …