Norska vísindaráðið birti í gær ársskýrslu sína um ástand villtra laxastofna í Noregi. Á undanförnum áratugum hefur villtum laxi sem skilar sér í norskar ár úr sjó fækkað um meira en helming. Ástæðurnar eru ýmis mannanna verk og breyttar aðstæður í hafi.

Í skýrslunni kemur fram að stærsta manngerða ógn villtra laxastofna í Noregi eru sleppifiskar úr laxeldi, ásamt laxalús og sjúkdómum sem má rekja til sjókvíaeldis.

Norska vísindaráðið er skipað þrettán vísindamönnum frá sjö sjálfstæðum háskólum og stofnunum í Noregi. Umsögn þeirra er afgerandi. Það er sama hvernig Einar K . Guðfinnssson, formaður stjórnar Sambands íslenskra fiskeldisfyrirtækja, og aðrir talsmenn þessa iðnaðar, reyna að draga úr þeim áfellisdómi sem þar kemur fram. Það er vísindaleg niðurstaða að opið sjókvíaeldi er mengandi og hættulegt fyrir lífríkið, alls staðar þar sem það er stundað.