„Fiskurinn hverfur. Botninn er rotinn og líflaus. Það er eitthvað hræðilegt í gangi í fjörðunum okkar.“

Þetta er fyrirsögn á sláandi úttekt sem var að birtast á vefsvæði Bergens Tidende, mest lesna dagblaðs Bergen í Noregi.

Það er að koma í ljós að sjókvíaeldi á laxi magnar upp þau skaðlegu áhrif sem eru að verða í hafinu vegna loftslagsbreytinga. Súrefnismagn í sjónum innan fjarða hefur farið jafnt og þétt lækkandi. Firðirnir eru að kafna.

Gríðarlegt magn af fiskisaur og fóðurafgöngum endar á botninum undir sjókvíunum og í umhverfi þeirra. Niðurbrot þessara efna er súrefnisfrekt ferli sem hefur þær afleiðingar að bakteríur sem þrífast vel í súrefnissnauðu umhverfi verða smám saman allsráðandi á sjávarbotninum.

Þetta er veruleg skaðleg þróun því þessar bakteríur hafa mjög slæma eiginleika í of miklu magni. Þær framleiða brennisteinsvetni, sem drepur botndýr, og metan, sem berst með loftbólum út úr botnsetinu og út í vatnssúluna í hafinu með ömurlegum afleiðingum fyrir umhverfið, segir í úttektinni.

Svona verða til „svartir“ fjarðabotnar sem lykta eins og fúlegg.

Allt lífríki fjarðanna geldur fyrir. Villtir staðbundnir nytjastofnar eins og þorskur, ufsi og karfi skaðast, eða hverfa á brott þeir sem geta.

Þetta er sú starfsemi sem stjórnvöld vilja greiða götu fyrir að verði stóraukin í fjörðunum okkar hér á Íslandi.

Við þurfum fólk á Alþingi sem snýr frá þeirri stefnu. Vernd náttúrunnar og lífríkisins er þverpólitískt mál. Við hvetjum ykkur, lesendur góðir, til að fá svör frá fulltrúum stjórnmálaflokka sem sækjast eftir stuðningi ykkar fyrir kosningarnar framundan. Styðja frambjóðendurnir aukið sjókvíaldi eða náttúruna og lífríkið? Þeir sem segja bæði, eru ekki að segja satt.