Hvernig innviðaráðherra gat komist að þeirri niðurstöðu að staðfesta skyldi tillögur að strandsvæðaskipulagi fyrir Vestfirði og Austfirði er sérstakt rannsóknarefni.

Sú ákvörðun verður stór blettur á stjórnmálaferli hans. Við höfum fulla trú á að henni verði hnekkt, enda sjókvíaeldissvæðin sem þar koma fram þvert á fjölmörg lög landsins.

Svæðisráðið sem unnu tillögurnar hefðu átt að vera skipuð fagfólki , sem treystir sér til að vinna skipulag frá grunni samkvæmt lögum og reglum og með framtíðina í huga, en ekki eftir hagsmunum einstakra aðila eða atvinnugreina, einsog var raunin.

Stofnanir sem áttu að gæta hagsmuna almennings gerðu það ekki frekar en ráðherrann. Þessi grein Benediktu Svavarsdóttur, Sigfinns Mikaelssonar og Magnúsar Guðmundssonar í Austurfrétt er skyldulesefni:

„Vinnubrögð Skipulagsstofnunar við strandsvæðaskipulag Austfjarða er unnið á sama hátt og allt annað sem kemur sjókvíaeldi og uppbyggingu þess við. Þar eru fulltrúar sem ganga erinda fiskeldisfyrirtækjanna og fúsk í vinnubrögðum. …

Skipulagsstofnun vann þvert á fyrra álit sitt við umsókn Laxa um 10.000 tonna eldi í Seyðisfirði. Það átti strax að segja nei. Valkostur A, sem er án sjókvíaeldis, er eina leiðin í Seyðisfirði vegna Farice-1 strengsins og helgunarsvæðis hans. Í öðru lagi átti Hafrannsóknarstofnun ekki að samþykkja beiðni sjávarútvegsráðherra um að taka Seyðisfjörð í burðarþolsmat, því henni bar að taka tillit til annarrar starfssemi í firðinum þ.e. strengsins og þröngrar siglingaleiðar. Þetta er staðfest í kolsvartri skýrslu Ríkisendurskoðunar. …

Skipulagið hefur vikið siglingaöryggi til hliðar. Á Vestfjörðum eru átta eldissvæði í hefðbundinni siglingaleið og níu á Austfjörðum. Ekkert mál var að hundsa grunnetshafnir, sem njóta siglingaverndar en hún er á ábyrgð Samgöngustofu.

Á Vestfjörðum eru átta eldissvæði og ellefu á Austfjörðum í hvítum ljósgeira vita. Þetta er brot á vitalögum, en þar ber Vegagerðin ábyrgð.

Að mati Landhelgisgæslunnar verður að gera ráð fyrir að öryggissvæði siglingaleiða sé a.m.k. 200 metrar en ekki 50 metrar líkt og tillögurnar gera ráð fyrir. Ekki var hlustað á það. Þarna eru a.m.k. þrjár stórskipahafnir Ísafjörður, Seyðisfjörður og Reyðarfjörður. Formaður svæðisráðs sagði aðspurður að Landhelgisgæslan væri bara lögregla á sjó og réði engu.

Þarna er alvarlegum athugasemdum þriggja ríkisstofnana ýtt til hliðar. Í Kveiksþætti í nóvember s.l. opinberaði Jens Garðar (Helgason, aðstoðarframkvæmdastjóri Laxa/Fiskeldis Austfjarða) hver ræður þegar hann var spurður um minnkað siglingaöryggi og sjókvíaeldi: „þá verðum við bara að setjast niður með þessum stofnunum og finna ásættanlega lausn.“ Fiskeldið ræður. …

Veðurstofan er enn ein ríkisstofnunin sem er hundsuð. Minnisblað Veðurstofunnar um að eldiskvíar á svæði SN2 í Seyðisfirði standist ekki viðmið um ofanflóðahættu er lagt til hliðar. Það þarf að skoða ef af leyfisveitingu verður, í staðin fyrir að nota plaggið og segja að þetta gangi ekki.

Í landinu eru lög um verndun náttúru og umhverfis. Fór svæðisráð fór eftir þeim? Nei – ekki alls staðar. Mörg dæmi eru um að hverfisvernd og staðir á náttúruminjaskrá hafi verið sniðgengin og falin í skipulagsuppdrættinum. Æðarfugl er á Evrópuválista og ein af fuglategundum, sem telst til ábyrgðartegunda á Íslandi. Æðarfugl er algengur bæði á Aust- og Vestfjörðum.

Það ber allt að sama brunni. Svæðisráðið tekur hagsmuni sjókvíaeldis fram yfir innviði landsins og allt annað, enda nokkrir sterkir talsmenn laxeldis í ráðinu. Ekkert eldissvæði, sem lagt var af stað með, var tekið út við vinnslu skipulagsins þrátt fyrir margar alvarlegar og málefnalegar athugasemdir.“