Lesendur Fréttablaðsins ráku margir hverjir upp stór augu í morgun þegar vitnað var til svars matvælaráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, við fyrirspurn Brynju Dan Gunnarsdóttur, varaþingkonu Framsóknarflokksins, um hvort hún telji þörf á að bregðast „við með einhverjum hætti vegna vísbendinga um erfðablöndun milli eldislaxa sem sloppið hafa úr sjókvíum og villtra laxastofna“.

Þetta er svar Svandísar: „Samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun hefur erfðablöndun milli eldislaxa og laxa úr villtum stofnum ekki verið staðfest.“

Ekki þarf mikla þekkingu á málaflokknum til að átta sig á að þarna hefur orðið einhver reginmisskilningur í samskiptum ráðherra við Hafró. Erfðablöndun eldislax við villtan lax hefur margsinnis verið staðfest í rannsóknum í Noregi, þar sem um 67 prósent villtra stofna bera með sér merki erfðablöndunar, og líka í íslenskum rannsóknum, sem einmitt sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar hafa gert.

Þetta verður örugglega leiðrétt af hálfu ráðherra, óþarfi er að efast um það. Mistökin eru svo augljós.

Svarið varpar hins vegar kastljósinu á áhættumat erfðablöndunar, sem sérfræðingar Hafrannsóknastofunnar eru höfundar að. Í því er að finna hið lagatæknilega hugtak „laxveiðiár“. Það hugtak nær hins vegar alls ekki yfir allar ár sem villtir laxastofnar eiga í heimkyni sín á Íslandi heldur einugis tilteknar ár sem landeigendur hafa stofnað um veiðifélög.

Við hjá IWF höfum einmitt ítrekað bent á í ýmsum umsögnum okkar til opinberra stofnana að með því að halda utan áhættumatsins öðrum ám með villtum laxi en þessum „veiðifélagaám“ hefur Hafrannsóknastofnun ákveðið að í lagi sé að fórna á altari sjókvíaeldisins þeim villtu laxastofnum sem þar eiga sín óðul.

Og vel að merkja, við hjá IWF erum ekki þau einu sem höfum bent á þetta. Óháð sérfræðinganefnd, skipuð af þáverandi sjávarútvegsráðherra, skilaði árið 2020 rýni á áhættumat erfðablöndunar þar sem gerðar voru mjög ákveðnar athugasemdir við þennan galla. Að þar vantaði vernd fyrir minni villta laxastofna. Auðvitað eiga þeir sinn sjálfstæða rétt í náttúru Íslands.

Hafrannsóknastofnun hefur aldrei skýrt af hverju hún kaus að líta fram hjá þessum dýrmætu stofnum, sem eiga sér um tíu þúsund ára þróunarsögu í ám á Vestfjörðum og víðar um Ísland.

Svar Svandísar, sem innihélt þessar kolröngu upplýsingar, er mjög ákveðin vísibending um að innan Hafró sé að finna einhvern klofning. Það er rannsóknarefni að kafa dýpra í það mál. En fyrst bíðum við leiðréttingar ráðherra.

Vísir talaði við Jóhannes Sturlaugsson sem var einn margra sem klóraði sér í kollinum yfir svörum Svandísar.