Sigmundur Ernir Rúnarsson hittir naglann lóðbeint á höfuðið í leiðara Fréttablaðsins í dag:

„Sjókvíaeldi er í raun og sann stríðsyfirlýsing á hendur náttúrunni. Svo og dýraríkinu, en erfðablöndun við villtan lax er stórfellt áhyggjuefni.“

Sigmundur Ernir setur þessa stríðsyfirlýsingi í samhengi við stóriðjudekur stjórnvalda í gegnum tíðina:

„Þessi dæmalausa gestrisni, að beisla náttúruna upp um allar heiðar í þágu útlenskra stórfyrirtækja, og hlífa þeim jafnframt við skattgreiðslum á þessum endimörkum álfunnar, þótti löngum vera til um marks hvað ráðamenn voru úrræðagóðir í atvinnumálum, þriðja meginstoðin – iðnaðurinn – var komin til að vera í íslenskum efnahag og yki fjölbreytnina á vinnumarkaði til muna.

Sama gestrisnin blasir nú við í stórauknu sjókvíaeldi á vestan- og austanverðu landinu. Erlendum fjárfestum er gefinn opinn aðgangur að misjafnlega þröngum fjörðum sem allsendis óvíst er hvort beri það eldi sem þar fer fram í kvíum undan landi.

Og enn skal gróðavonin njóta vafans. Náttúran verður bara að þola sitt á meðan atinu vindur fram – og það sakar auðvitað ekki í þeim efnum að ósóminn sem af því hlýst er allur geymdur undir yfirborði sjávar.“