Laxar fiskeldi hafa tilkynnt um 50 x 15 cm stórt gat á nótarpoka einnar sjókvíar Laxa við Vattarnes í Reyðarfirði. Í sjókvínni voru um 145.000 laxar að meðalþyngd 2,6 kg.

Á þessari stundu er ekki ljóst hversu margir laxar hafa sloppið né hvort grunur er um að í þessari sjókví kunni að hafa verið eldislax sýktir af blóðþorra.

Sjókvíaeldisfyrirtækið Laxar hafa staðið í stórfelldri slátrun á eldislaxi vegna blóðþorrasýkingar í sjókvíum í Reyðarfirði. Þessi skæði veirusjúkdómur er versta pest sem getur komið upp í sjókvíaeldi. Hann hafði aldrei fundist hér við land áður en uppgötvaðist í eldi Laxa í Reyðarfirði. Dýralæknir fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun hefur sett fram þá kenningu að aðbúnaður eldislaxanna hafi verið svo slæmur að ónæmiskerfi þeirra hafi brostið og veiran stökkbreyst í þetta banvæna afbrigði.

Allt er á sömu bókina í þessum hörmulega iðnaði, sem skaðar eigin eldisdýr, umhverfið og lífríkið. Sjókvíaeldi er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu.

Matvælastofnun gaf út eftirfarandi yfirlýsingu þann 25 janúar:

„Fiskistofa vitjaði netanna 21. janúar og reyndist enginn fiskur í netunum. Í framhaldi voru netin tekin upp að beiðni Fiskistofu. Matvælastofnun fyrirskipaði að kafað yrði í allar kvíar á eldissvæðinu Vattarnesi og að köfunarskýrslum yrði skilað til stofnunarinnar. Ekkert reyndist athugavert við aðrar kvíar á svæðinu.

Að gefnu tilefni vill Matvælastofnun árétta að fiskur á eldissvæðinu Vattarnesi í Reyðarfirði er ekki sýktur af Blóðþorra. Öll eldissvæði á Austfjörðum eru undir reglubundnu eftirliti með áherslu á skimanir gegn ISA veirunni.“