Í fyrra drápust 54 milljónir eldislaxa eða 15,5 prósent þeirra laxa sem voru í sjókvíum við Noreg. Hefur dauðinn aldrei verið meiri í sögu norsks sjókvíaeldis. Fyrra hörmungarmetið féll 2019 þegar þörungablómi kæfði eldislax í stórum stíl í sjókvíunum þar við land. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu norsku Dýralæknastofnunarinnar um stöðu heilbrigðismála í fiskeldi í Noregi.

Á hverju ári segir forsvarsfólk norska sjókvíaeldisgeirans að þetta ástand sé óásættanlegt og heitir því að bæta ráð sitt. Ekkert breytist þó. Ár eftir ár er vist eldislaxanna jafn ömurleg og sífellt fleiri laxar drepast í sjókvíunum.

Ástæðurnar eru fjölmargar samkvæmt skýrslu Dýralæknastofnunarinnar. Efst á listanum er meðhöndlun eldisdýranna af hálfu fyrirtækjanna. Aflúsunin reynir verulega á laxinn, veikir ónæmiskerfið og gerir hann berskjaldaðan fyrir ýmsum bakteríu- og veirusjúkdómum.

Forstjóri norsku Dýralæknastofnunarinnar segir í yfirlýsingu að of mikil áhersla sé lögð í norskri laga- og reglusetningu á að miða vöxt greinarinnar við stöðu laxasmits innan hennar. Þetta komi niður á velferð eldisdýranna. Forstjórinn segir það skyldu stofnunarinnar að ráðleggja stjórnvöldum að herða á lögum um velferð og heilsu í sjókvíaeldinu.

Hér á landi erum við svo í enn verri málum en Norðmenn. Dauðinn í fyrra var enn hrikalegri. Um 18 prósent eldislaxa sem hafðir voru í sjókvíum drápust hér.

Þetta ár byrjar svo með enn meiri hörmungum fyrir vestan í Dýrafirði

Íslensk stjórnvöld hljóta að bregðast við þessum manngerðu hamförum. Fyrirtækjunum er augsýnilega ekki treystandi sjálfum til að bæta ráð sitt. Það sýnir reynslan glögglega í Noregi og sama staða er hér.

Aldri før har flere laks dødd i sjøfasen