Þetta er dýravelferðarmál án fordæma hér á landi. Það vitum við frá heimildarfólki okkar fyrir vestan. Eldislaxarnir voru svo skelfilega farnir eftir lúsina að ekki var annað hægt en að slátra þeim.

„Fyrirtækin og dýralæknar þess sáu fram á að laxinn myndi ekki lifa af veturinn með þann sáraskaða sem er á honum,” segir í frétt RÚV.

Athugið að þó það komi ekki fram í frétt RÚV þá verður öllum þessum fiski fargað. Tvö stór norsk tankskip, Hordafor IV og Hordafor III eru fyrir vestan og áhafnir þeirra eru að drepa þennan helsærða fisk og dæla honum beint í tankana.

Og hafið líka í huga hvernig iðnaðurinn hefur mótað orðalagi jafnvel fréttafólks. Enginn blaðamaður myndi setja í fyrirsögn að sex tonn af mjólkurkúm hafi brunnið inni í frétt af fjósbruna.

Líklega eru þetta um 400 þúsund eldislaxar sem voru með svo mikla áverka að það þurfti að slátra þeim. Það eru um sjö sinnum fleiri laxar en allur íslenski villti laxastofninn. Og slátrun er enn í gangi.

Þetta er svo ógeðslegur iðnaður að það nær ekki nokkurri átt.

Niðurlagið í frétt RÚV er svo lýsandi. Þar er allur fókusinn á „tjón” fyrirtækjanna. Enginn gaumur er gefinn þjáningu eldislaxanna sem lúsin hefur leikið svo hræðilega að það þarf að slátra þeim og farga.

Það er alveg ljóst að þetta ástand er 100 prósent á ábyrgð fyrirtækjanna. Þau létu lúsina breiðast svona út. Alltof mikið af fiski er í þessum fjörðum. Ástandið er orðið stjórnlaust.

Í umfjöllun RÚV segir:

Þúsund tonnum af eldislaxi hefur verið fargað úr tólf kvíum fyrirtækjanna Arnarlax og Arctic Sea Farm í Tálknafirði í dag. Ástæðan eru sár á löxunum vegna laxalúsar í kvíunum.

Berglind Helga Bergsdóttir, sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu, en segir þó að stofnunin hafi ekki fyrirskipað förgunina.

„Fyrirtækin og dýralæknar þess sáu fram á að laxinn myndi ekki lifa af veturinn með þann sáraskaða sem er á honum.“

Berglind segir lúsina hafa dreifst um kvíarnar síðustu tvær vikur á hraða sem ekki hefur sést áður. Tjónið hlaupi á milljörðum króna.