„Ef að [eldislaxinn] fer að blandast okkar stofnum þá bæði hefur það áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika og hættan er sú að smám saman minnki þróttur okkar laxastofna þannig að það komi niður á stofnstærðum þegar að fram líða stundir […] Og svo fyrir utan að laxastofnar í Atlantshafi eiga undir högg að sækja af umhverfislegum ástæðum og ef það eru aðrir þættir sem að leggjast ofan á þá er hætta á því að stofnarnir minnki og þar með bæði náttúruverðmæti þeirra og síðan nýtingarverðmæti, sem er mjög mikið.“

Svona lýsir Guðni Guðbergsson sviðsstjóri ferskvatns- og eldissviðs Hafrannsóknunarstofnunnar ástandinu. Það er martraðarkennt.

Við vekjum athygli á því að þetta hefur verið leiðarminnið í skilaboðum okkar í mörg ár. Á sama tíma hafa ýmsar klappstýrur á vegum þessa skaðlega iðnaðar haldið því fram í athugasemdakerfi þessarar síðu að þetta gæti ekki gerst. Þar á meðal meintur fræðimaður sem kennir við fiskeldisdeildina að Hólum sem hefur reglulega mætt hér og haft uppi stóryrði. Þögnin ein ríkir nú úr þeirri átt. Vonandi er það merki um hann að er hugsa sinn gang og skammast sín fyrir bullið

Í umfjöllun Vísis sagði Guðni m.a. ennfremur:

„Það er það sem við erum búin að fá í hús og fara í gegnum. Það eru reyndar fleiri fiskar sem komu frosnir sem á eftir að fara í gegnum og rannsaka en þetta eru um það bil hlutföllin. Og það er náttúrulega ástæðan fyrir því að þau eru greyin að leita upp í árnar. Þetta er kynþroskinn sem dregur þá þangað,“ segir Guðni.

Er þetta ekki það sem menn óttuðust?

„Jú, það er það sem að í rauninni allar aðgerðir hafa miðað við. Í fyrsta lagi að halda fiskum inni í sínum kvíum og síðan að vera með mótvægisaðgerðir þannig að forðast að þeir verði kynþroska. Það er reyndar búið að kynbæta þá fyrir síðkynþroska og vexti. En eitt af því sem menn hafa verið að beita er að hafa ljósastýringar líka í kvíunum þannig að fiskar verði ekki varir við breytinguna í daglengd. Það er breytingin í daglengd sem ræður því hvenær þeir fara í kynþroska. Þeir skynja það á breytingunni að nú sé komið haust og þá sé tími til að koma sínum genum áfram.“

Guðni segir að slysið sé það afdrifaríkasta sinnar tegundar hér á landi. Hafrannsóknarstofnun hafi ekki áður orðið vör við þetta háa hlutfall kynþroska eldislaxa eftir slysasleppingu.

„Það var náttúrulega búið að slátra upp úr þessari kví sem götin komu á. En það var gerð mæling á kynþroskastigi í annarri kví á sama stað og þar voru 35 prósent í úrtakinu sem voru kynþroska sem að bendir kannski til þess að þriðjungur af þessum 3.500, ef að sú tala er rétt – hún er svona með öryggismörkum, það er það sem að við eigum von á að leiti upp í ár. Fiskar sem sleppa ókynþroska, það er náttúrulega hærri dánartala á þeim heldur en þessum sem eru orðnir stórir og leita beint inn í ár til hrygningar.“

Hann segir norska eldislaxinn ansi frábrugðinn íslenska laxinum. Hér á landi, og víðar í Evrópu, hafi villti laxinn aðlagast umhverfi sínum í þúsundir ára; þeir hæfustu lifi enda af. Norska kynbótalaxinn sé hins vegar búið að rækta fyrir vaxtahraða, holdgæði og aðra eftirsótta eiginleika eldisfiska.