Staðan á sjókvíaeldissvæðunum fyrir vestan er skelfileg en kemur því miður ekkert á óvart. Jóhannes Sturlaugsson fiskifræðingur gerir grein fyrir niðurstöðum rannsókna sinna í Fréttablaðinu í dag.

Í greininni segir Jóhannes meðal annars:

„Aldrei hafa fleiri eldislaxar veiðst í íslenskri veiðiá og aldrei hefur svo hátt hlutfall eldislaxa verið staðfest í hópi hrygningarlaxa í veiðiá hérlendis (15,4%) á þessari öld. Í þessum hópi voru flestir eldislaxanna langt komnir í hrygningu sinni: veiddir þar sem þeir voru hrygnandi paraðir við villta laxa af stofni árinnar. Niðurstöðurnar vitna skýrt um það að sá erfðablöndunarvandi sem þegar hafði verið staðfestur vegna þátttöku eldislaxa í hrygningu laxins í Fífustaðadalsá á síðastliðnum árum, hefur vaxið enn frekar. Þetta er veruleikinn sem sá laxastofn má lifa við vegna ákvarðana sem teknar hafa verið með hagsmuni aðila er leggja stund á sjókvíaeldi á laxi hérlendis að leiðarljósi, fremur en hagsmuni þeirrar villtu náttúru sem skaðast vegna kvíaeldisins. …

Rétt er að minna á það að erfðablöndunarþátturinn er þó einungis hluti af þeim tilvistarvanda sem sjókvíaeldið skapar hjá þessum berskjölduðu smáu laxastofnum í næsta nágrenni eldissvæðanna. Þar kemur nefnilega einnig við sögu aukin dánartíðni villtra laxa yfir sjógönguna hjá laxstofnum áa sem næstar eru sjókvíaeldissvæðunum fyrir tilstilli laxalúsaáþjánar sem sjókvíaeldið veldur. Ekkert áhættumat fyrirfinnst hérlendis er tekur á þeim vanda frekar en áhættunni á því að smitsjúkdómar berist í villta laxastofna fyrir tilstilli sjókvíaeldisins. Rétt er einnig að minna á þá saðreynd að sníkjudýrið laxalús sem vex og dafnar í sjókvíaeldinu skerðir á sambærilegan hátt heilbrigði og lífslíkur sjóbirtinga úr ám í nágrenni við sjókvíaeldið. Hér er við hæfi að geta þess að sömu menn og sáu ekki tilefni til að verja smáa laxastofna í næsta nágrenni sjókvíaeldissvæða við gerð áhættumats Hafrannsóknastofnunar, hafa engu að síður séð tilefni til að taka við umtalsverðum fjármunum fyrir hönd Hafrannsóknastofnunar í því skyni að rannsaka þá sömu stofna. Nokkuð sem enn og aftur vekur upp áleitnar spurningar um það hversu eðlilegt vinnulagið sé hjá forsvarsaðilum Hafrannsóknastofnunar í ákvarðanatökum þar sem hagsmunir náttúrulegra laxastofna og eldisaðila skarast.“