Þessi staða er svo svakaleg. Og athugið að rannsóknarsýnin sem skýrsla Hafrannsóknastofnunar byggir á eru nokkurra ára gömul, eða frá tímabili þegar magn eldislax í sjókvíum við Ísland var ígildi 6.900 tonna ársframleiðslu.

Núgildandi áhættumat Hafró gerir ráð fyrir að ársframleiðslan verði 106.500 tonn, eða ríflega fimmtán sinnum meiri, sem er hrein og tær geggjun.

Í umfjöllun RÚV kemur fram:

Hafrannsóknastofnun birti á dögunum niðurstöður rannsóknar á erfðablöndun laxfiska í 89 ám hringinn í kringum landið. Alls greindust 133 blendingar af fyrstu kynslóð, það er ný afkvæmi eldislaxa og villtra laxa. Þessir eldisblendingar fundust í tæplega einni á af hverjum fimm sem tekin voru sýni úr. Í heild reyndust rúmlega tvö prósent laxfiskanna sem voru rannsakaðir vera fyrstu kynslóðar blendingar. Í þriðju hverri á fundust eldri blendingar. Samtals reyndust 4,3% fiska sem voru rannsökuð blönduð. …

Almennt var blöndunin mest í ám í grennd við eldissvæði en dæmi voru um að blendingar fyndust í allt að 250 kílómetra fjarlægð frá sjókvíaeldi. …

Það er niðurstaða Hafrannsóknastofnunar að þá erfðablöndun sem greindist í rannsókninni megi rekja til tiltölulega fárra strokulaxa, eða lítils eldismagns, eins og það er orðað. …

Sýnin sem lágu rannsókninni til grundvallar voru flest tekin úr hrygningarárgöngum áranna 2014 til 2018. Þá var framleiðsla á eldislaxi hér við land aðeins lítið brot af því sem nú er, tæp 7000 tonn á ári, í fyrra var framleiðslan sexfalt meiri, 43000 tonn. Erfðablöndun kann því að hafa aukist verulega í takt við það.

Samkvæmt núgildandi áhættumati Hafrannsóknastofnunar er talið að hægt sé að ala 106.500 tonn af frjóum laxi án þess að það valdi neikvæðum áhrifum á nytjastofna villtra laxa.