Fulltrúar IWF voru í hópi íslenskra náttúruverndarsamtaka sem fóru ásamt fulltrúum frá Patagonia á fund forseta Alþingis, Steingríms. Sigfússonar, í dag og afhentu áskorun sem ríflega 180 þúsund manns hafa skrifað undir um að útgáfu leyfa til sjókvíaeldis verði hætt.

Greint er frá fundinum á Vísi.is:

“Síðasta vor hleyptu Patagonia, bandarískt útivistarvörufyrirtæki og WeMove af stað undirskriftarsöfnun með stuðningi Íslenskra náttúruverndarsamtaka þar sem skorað er á stjórnvöld að láta af opnu sjókvíaeldi. Jón Kaldal, talsmaður Icelandic Wildlife Fund, segist hafa miklar áhyggjur af áhrifum opins sjókvíaeldis á villta laxastofna.

„Laxeldi í opnum sjókvíum fer þannig fram að það er netapoki hengdur í grind og svo er fiskur settur í netið. Öll mengun og allur úrgangur; lyf, skordýraeitur og annað sem fer í netið og í kvíarnar rennur síðan beint í sjóinn. Það er gríðarleg staðbundin mengun af þessari starfsemi. Í kvíunum er ítrekað mikið lúsafár, núna í síðustu viku var verið að eitra í sjókvíum á sunnanverðum vestfjörðum, bæði hjá Arnarlaxi og Arctic Sea Farm út af laxalús sem er þar grasserandi,“ segir Jón.

Síðan sleppi reglulega fiskar úr sjúkvíum.

„Þetta húsdýr sem eldislaxinn er, það er stórhættulegt þegar það blandast villtum stofnum. Þá kemur inn DNA úr skepnu sem hefur verið alin sem húsdýr í einhverjar tólf kynslóðir og hefur allt aðra eiginleika en hafa orðið til í náttúruvali í þúsundum ára hjá villtu stofnunum. Þegar erfðablöndunin verður þá ógnar það mjög afkomu villtu fiskanna okkar.“

Villti laxastofninn eigi þegar undir högg að sækja.”