Loksins er farið að spyrna við fótum. Það er risagat í íslensku fiskeldislöggjöfinni um flest allt sem snýr að fiski- og laxalúsarplágunni, sem er þó einn af þremur helstu skaðvöldum sjókvíaeldisiðnaðarins.

Ábendingar um núverandi lagalegt úrræðaleysi hefur verið rauði þráðurinn í umsögnum okkar hjá IWF til stofnana í langan tíma.

Skv. frétt RÚV:

„Skipulagsstofnun telur mikilvægt að skýr heimild sé til staðar til að draga úr eldi í Ísafjarðardjúpi ef ekki tekst að halda laxalús í skefjum. Þá er lítið vitað um hver samlegðaráhrif yrðu af því eldi sem ólík fyrirtæki fyrirhuga í Djúpi. Þetta kemur fram í áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum af átta þúsund tonna laxeldi Arctic Sea Farm í Ísafjarðardjúpi.

Fyrirtækið er þegar með starfsleyfi upp á 5.300 tonn í Skötufirði og við Snæfjallaströnd, þetta er því 2.700 tonna aukning.

Í álitinu segir að miðað við áætlanir Arctic Sea Farm, sem heyrir undir Arctic Fish, verður fjarlægð á milli eldissvæða ólíkra fyrirtækja minni en fimm kílómetrar á að minnsta kosti tveimur stöðum. Sé mið tekið af öllu því eldi sem er fyrirhugað þá verði allt eldi Arcic Sea Farm innan við fimm kílómetra frá öðrum aðilum og öfugt. Það brjóti í bága við meginviðmið í reglugerð um fiskeldi þar sem segir að minnst fimm kílómetrar eigi að vera þar á milli. Matvælastofnun má þó heimila að styttra sé á milli.“