Á sama tíma og Færeyingar og Norðmenn hækka skatta á sjókvíaeldisfyrirtækin ákveðu íslensk stjórnvöld að lækka löngu boðuð gjöld í þessum geira. Svo virðist sem eina ástæðan fyrir því að meiri­hluti efna­hags- og við­skipta­nefnd­ar, sem sam­anstendur fulltrúum stjórn­ar­flokk­anna þriggja, ákvað nú í desember að hætta við gjaldtökuna hafi verið þrýstingur frá SFS, hagsmunagæslusamtökum sjókvíaeldisfyrirtækjanna.

Skattar og gjaldtökur í þessum iðnaði skipta verulegu máli. Opið sjókvíaeldi er nú í raun niðurgreitt af umhverfinu og lífríkinu, en þangað er reikningurinn sendur fyrir menguninni og erfðablönduninni við villta laxastofna. Hin framleiðsluaðferðin, laxeldi í kerjum á landi tryggir að þaðan fer ekki óhreinsað skólp beint í umhverfið og eldisfiskar sleppa ekki í sjó.

Stjórnvöld hafa í hendi sér að beina þessum iðnaði með hagrænum hvötum frá notkun opinna sjókvía. Hér á landi virðast þau vera á leiðinni í þveröfuga átt.

Í umfjöllun Heimildarinnar segir meðal annars:

„Færeyska ríkisstjórnin hefur boðað aukna skattheimtu á laxeldisfyrirtæki í Færeyjum. Hækkunin er allt upp í fjórföld miðað við núgildandi skattgreiðslur í þessari framleiðslugrein. Stærsta laxeldisfyritæki Færeyja, Bakkafrost, sendi frá sér kauphallartilkynningu í Noregi vegna þessarar auknu skattlagningar í gær. Bakkafrost er stærsta laxeldisfyrirtæki Færeyja og framleiddi fyrirtækið tæplega 91 þúsund tonn í fyrra.

Fjallað er um þessar skattahækkanir í sjávaútvegsblaðinu Intrafish í dag undir fyrirsögninni:  „Betra en skattahugmyndirnar í Noregi: Færeyska ríkisstjórnin leggur til stóraukna skatta á laxeldi. “

Á Íslandi hefur ekki verið ákveðið að fara í sams konar skattahækkanir á laxeldisiðnaðinn og í Noregi og Færeyjum. Ástæðan er meðal annars sú að þessi iðnaður á sér ekki eins langa sögu á Íslandi og Færeyjum og Noregi en sem dæmi má nefna að Bakkafrost var stofnað árið 1968 og framleiðir rúmlega tvöfalt meira magn af eldislaxi en öll laxeldisfyrirtæki á Íslandi til samans. Heildarframleiðsla á Íslandi var tæp 44 þúsund í fyrra á meðan Bakkafrost framleiddi tæplega 91 þúsund tonn af eldislaxi.

Raunar hefur verið gagnrýnt hversu lágir skattar og gjöld eru innheimt af laxeldisfyrirtækjum hér á landi og hefur stjórnarformaður Arnarlax meðal annars bent á þessa lægri gjaldtöku sem tækifæri fyrir Ísland í ljósi skattahækkana í þessum nágrannaríkjum okkar.

Þá var í fyrra fallið frá aukinni gjaldtöku á laxeldisfyrirtækin hér á landi á þeim forsendum meðal annars að ekki væri búið skila skýrslu Boston Consulting Group um framtíð lagareldis á Íslandi. Þessi ákvörðun var tekin eftir að meðal annars Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi lögðust gegn henni. Hún felur meðal annars í sér að 450 milljónir króna sem laxeldisfyrirtækin áttu að greiða til ríkissins á þessu ári skila sér ekki þangað.  Þá á eftir að koma í ljós hvernig þessari gjaldtöku verður háttað á næstu árum en hún á að skila 650 milljónum í ríkiskassann á næsta ári og 760 milljónum árið 2025.

Íslensk stjórnvöld eru því að feta aðra slóð varðandi gjaldtöku í laxeldi en bæði Norðmenn og Færeyingar.“