Hér er stórmerkilegt mál á ferðinni.

Þessari stórskaðlegu starfsemi hefur verið hleypt ofaní firði landsins þvert á ýmis lög og reglugerðir. Sífellt bætist við syndalistann.

Sjókvíar eru staðsettar þar sem þær mega ekki vera samkvæmt lögum um vitamál og siglingaöryggi og mannvirkjunum að auki komið fyrir í trássi við lög um byggingar samkvæmt þessum nýjustu tíðindum.

Í ítarlegri umfjöllun Vísis um þetta mál kemur meðal annars fram:

Frá og með deginum í dag verður gerð krafa um byggingarleyfi vegna sjókvía þar sem þau teljast mannvirki samkvæmt lögum. Lögfræðingur segir að stöðva þurfi starfsemi sjókvíaeldisfyrirtækja þar til búið sé að afla tilskilinna leyfa. Samfélagið hafi stórtapað á því að lögin hafi ekki verið virkjuð fyrr.

Stofnunin hafi unnið að útfærslu ferla við leyfisveitingu vegna umsókna um byggingarleyfi fyrir sjókvíar þar sem um er að ræða óhefðbundin mannvirki út frá kröfum í mannvirkjalögum og byggingarreglugerð. Einnig vinnur stofnunin að samantekt upplýsinga um sjókvíar sem sett hafi verið niður án þess að byggingarleyfis hafi verið aflað fyrir þær. Í framhaldinu verði tekin ákvörðun um málsmeðferð og niðurstaða kynnt opinberlega þegar hún liggi fyrir. …

Lögfræðingurinn Katrín Oddsdóttir vakti athygli á tilkynningu HMS í færslu á Facebook í dag og sagðist hafa potast í stofnuninni undanfarin ár til að ræsa út skilning þeirra á sjókvíunum. Það sé stórfrétt að lög um mannvirki eigi við um kvíarnar þó það væri skýrt samkvæmt lögum.

Í ljósi þessara frétta segir hún að sækja hefði átt um byggingarleyfi fyrir allar sjókvíar á landinu. „Það hefur ekki verið gert og því eru þessar kvíar ólögmæt mannvirki að mínu mati,“ skrifar hún í færslunni.

Hún segir ekki nóg að breyta stjórnsýsluframkvæmdinni eins og HMS greinir frá heldur verði að „stöðva alla starfsemi í ólögmætum sjókvíarmannvirkjum og tryggja að þau mannvirki standist lögin og fái tilskilin leyfi.“ …

Hún bendir sérstaklega á skilyrði fyrir byggingarleyfi í þrettándu grein mannvirkjalaga. Þar segir að ef óvissa sé um hvort fyrirhuguð byggingarleyfisskyld framkvæmd hafi alvarleg eða óafturkræf áhrif á vistkerfi skuli umsækjandi leyfis afla sérfræðiálits um möguleg og veruleg áhrif sem framkvæmdin kann að hafa á vistkerfi.

Sömuleiðis segir þar að leyfisveitanda sé heimilt að binda byggingarleyfi skilyrðum sem þykja nauðsynleg til að draga úr slíkum áhrifum. Við mat á því hvað teljist alvarleg eða óafturkræf áhrif skuli taka mið af verndarmarkmiðum um náttúruvernd.

Þær greinar í náttúruverndarlögum fjalla að sögn Katrínar um „verndun líffræðilegs fjölbreytileika, vistkerfa og að varðveita tegundir lífvera og erfðafræðilega fjölbreytni þeirra og tryggja ákjósanlega verndarstöðu þeirra þannig að tegundirnar nái að viðhalda sér í lífvænlegum stofnum til lengri tíma á náttúrulegum búsvæðum sínum.“