Vísir tekur hér upp í frétt þráðinn úr aðsendri grein eftir Yngvi Óttarsson verkfræðing sem birtist í morgun. Yngvi bendir þar á þá stórfurðulegu og óþolandi stöðu að þeir starfsmenn atvinnuvegaráðuneytisins sem fara með fiskeldismál eru nátengdir sjókvíaldisgeiranum.

Við bendum fólki á að lesa grein Yngva.

Blaðamaður Vísis ræddi við Yngva:

Spurður hvernig það kom til að hann taldi vert að skrifa grein um þetta efni, þar sem svo alvarlegar ásakanir eru settar fram, að hagsmunatengdir aðilar komi beint að stjórnvaldsaðgerðum, segir Yngvi að honum ofbjóði hvernig stjórnkerfið virðist stöðugt draga taum þessa mengandi iðnaðar sem opið sjókvíaeldi er.

„Og mér ofbýður virðingarleysið fyrir náttúrunni og umgengni við hana. Það er margrannsakað að þessi iðnaður getur útrýmt villtum stofnum, hratt og örugglega ef lús leggst á sjógönguseiði, nú eða þá hægt en örugglega ef nægjanlega mikil erfðamengun verður um langan tíma.

Yngvi segir að þetta sé allt vel þekkt og hafi verið kortlagt til dæmis í Noregi.

„Ég hélt að mannkynið væri fyrir löngu búið að koma sér saman um að hætta ekki á að útrýma villtum dýrastofnum.“

En, átt þú sjálfur einhverra hagsmuna að gæta í málinu?

„Já, í fyrsta lagi er ég Íslendingur og eitt peð á þessari jörð. Og vil ekki að náttúrunni sé stefnt í voða – í þessu tilviki að ástæðulausu, því það eru ýmsar góðar leiðir til að stunda fiskeldi, landeldi, lokuð kerfi í sjó, nú eða þá jafnvel geldfiskur. Það virðist ekkert vera sjókvíaeldisfyrirtækjunum heilagt í augnablikinu. …