Ný norsk úttekt sýnir að kolefnisfótspor eldislax úr sjókvíum er fimm sinnum hærra en þorsks. Þar að auki er sjókvíaeldislaxinn með 25 prósent hærra kolefnisfótspor en kjúklingur sem ræktaður er í Evrópu.

Í skýrslunni kemur fram að kolefnisfótspor sjókvíaeldislax hefur farið mjög vaxandi á undanförnum árum. Helstu ástæður eru þessar:

1) Vaxandi fiskidauði í sjókvíaeldinu og viðvarandi lúsafár hefur haft í för með sér meiri umferð brunnbáta og annarrar þjónustuskipa í kringum sjókvíarnar.

2) Þessi aukni fiskidauði hefur síðan leitt af sér mun verri fóðurnýtingu. Með öðrum orðum, reikna þarf fóðrun þess fisks sem drepst með í þeim hluta framleiðslunnar sem fer til neytenda.

3) Miklu hærra hlutfall fóðursins kemur úr plönturíkinu en áður. Þetta eru fyrst og fremst sojabaunir sem eru ræktaðar á gríðarlegu landflæmi fjarri Noregi, aðallega í Suður-Ameríku. Þessi mikla landnotkun og langar flutningsleiðir fóðurs vega mjög þungt þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda.

Rannsóknin er unnin af SINTEF, sem er eitt elsta og virtasta rannsóknarfyrirtæki Evrópu.