„Í Fífustaðadalsá var ástandið óhugnanlegt svo ekki sé meira sagt, því sjókvíaeldislaxarnir 21 að tölu voru meirihluti hrygningarlaxanna í ánni alla leið upp í fjallshlíðar. Í nágrannaánni Selárdalsá náðist sjókvíaeldislax nú í fyrsta sinn þau 9 ár sem vöktunin hefur staðið sem segir sína sögu af því ófremdarástandi sem nú ríkir hérlendis vegna sjókvíaeldis á laxi.“

Meirihluti hrygningarlaxa. Hugsið ykkur ástandið.

Vísir ræddi m.a. við Jóhannes Sturlaugsson líffræðing, en hann er einn fremsti sérfræðingur Íslands á sviði ferskvatnfiska:

Jóhannes hefur kvartað undan því að áhættumat snúi bara að skilgreindum laxveiðiám en því fer fjarri að hinn villti íslenski lax sé bundinn við þær einar. Hann er nýkominn úr ferð í Arnarfjörð en þar hefur hann fylgst með Fífudalsá og Selárdalsá; sjóbirtingi og laxi. Þetta er 9. árið í röð sem hann mætir og lýsir því sem við blasti að þessu sinni sem skelfilegu. Hann segir sjókvíaeldisskrímslin nú hafa tekið yfir í þeim ám.

„Í Fífustaðadalsá var ástandið óhugnanlegt svo ekki sé meira sagt, því sjókvíaeldislaxarnir 21 að tölu voru meirihluti hrygningarlaxanna í ánni alla leið upp í fjallshlíðar. Í nágrannaánni Selárdalsá náðist sjókvíaeldislax nú í fyrsta sinn þau 9 ár sem vöktunin hefur staðið sem segir sína sögu af því ófremdarástandi sem nú ríkir hérlendis vegna sjókvíaeldis á laxi.“ …

„Eins og þegar sjókvíaeldisskrímslin synda í stríðum straumum í þær til hrygningar. Í Fífustaðadalsá var megnið af sjókvíalaxinum í efri hluta árinnar þar með talið uppi í vatnslitlum upptakakvíslum í fjallshlíðum þar til för þeirra var tálmuð af ófiskgengum fossum.“

Sú staðreynd sýni að sjókvíaeldislaxar eru á slíkum svæðum og í því sambandi nauðsynlegt að nefna að í vatnslitlum en fiskgengum efri hluta áa nýtist rekköfun ekki til að fjarlægja sjókvíaeldislax sem gengur upp á slík ársvæði. En eins og fréttir hafa greint frá hafa froskkafarar frá Noregi verið fengnir til að verka upp það sem í næst af frjóum eldislaxi.

Vöktun liðinna ára sýndi að þá þegar var fjöldi eldislaxa sem sluppu úr sjókvíum og gengu í Fífustaðadalsána til hrygningar langt yfir þeim hættumörkum sem notuð eru sem viðmið hérlendis til að ákvarða hvort laxastofnum stafi hætta af erfðablöndun og eina staðfesta dæmið þess efnis. Af þeim sökum fékk Jóhannes fundi á liðnum vetri með Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra, Kolbeini Árnasyni skrifstofustjóra og sérfræðingum Matvælaráðuneytisins til að ræða vanda íslenskra laxastofna vegna sjókvíaeldis hér við land. …

Hann hafði þó ekki erindi sem erfiði. Ekki var það talið gerlegt en þess í stað bent á Umhverfissjóð sjókvíaeldis sem í framhaldinu var sótt um styrk í til að standa straum af því að byggja slíkt gildrumannvirki og til að gera frekari úttektir á erfðablöndun þar.

„Skemmst er frá að segja að sá sjóður sem hefur það megin markmið að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif veitti ekki styrk til að vernda þann stofn enda þótt sjókvíaeldi hér við land sé fyrir tilstilli hrygningarþátttöku eldislaxa í þeirri á komið vel á veg með að ganga af laxastofni árinnar dauðum“. …