“Það sem magnað er að sjá að þetta fyrir­tæki virðist frekar harma það að Mat­væla­stofnun sé að gera þá á­byrga og láta þá borga sekt og virðast hafa meiri á­hyggjur af því en þeirri stað­reynd að hér hafi 80 þúsund eldis­laxar sloppið út í náttúruna,” segir Elvar Örn Friðriksson framkvæmdastjóri NASF í þessu fréttaviðtali og bendir réttilega á forherðingu þessa skaðlega iðnaðar.

Í Fréttablaðinu segir m.a.:

Elvar Örn Frið­riks­son fram­kvæmda­stjóri Verndar­sjóðs villtra laxa­stofna segir myndefni frá Dýrafirði sýna steindauðan hafsbotn undir laxeldiskvíum sem jafnvel hafa verið í marga mánuði í hvíld. Þetta kemur fram í Frétta­vaktinni í kvöld en horfa má á viðtalið neðst í fréttinni.

Hann segir slysa­sleppingu 80 þúsund eldis­laxa í Arnar­firði ekki vera tekna nógu al­var­lega. Ís­lenskir firðir, eystra og vestra, ráði ekki við mengunina af völdum eldisins.

„Það þarf ekki að horfa langt til þess að sjá að þetta hefur hvergi komið sér vel fyrir um­hverfið. Í öllum löndum þar sem þessi iðnaður hefur verið stundaður er það sama sagan, það eru erfða­blandaðir laxa­stofnar, það er mikil mengun, það eru nei­kvæð á­hrif á líf­fræði­legan fjöl­breyti­leika og þess vegna er ó­skiljan­legt að við séum á sömu veg­ferð hér.“ …

„En við höfum séð á ný­legu mynd­efni frá Veigu Grétars­dóttur kaja­kræðara og um­hverfis­verndar­sinna að botn undir kvíum í Dýra­firði sem er búinn að vera hvíldur mánuðum saman er enn­þá ein stór bakteríu­motta þar sem ekkert annað þrífst, stein­dauður botn.“

Þetta er úr­gangur úr fiskunum?

„Úr­gangur úr fiskunum, fóður­leifar. Af því að það sem er svo­lítið merki­legt við sjó­kvía­eldi er að allt sem fer ofan í kvína endar á hafs­botni og þeir eru ekki á­byrgir fyrir því. Úr­gangurinn safnast bara upp.“