Vegna loftslagsbreytinga og súrnun sjávar verða lífsskilyrði villta laxins sífellt erfiðari. Sjókvíaeldi þrengir verulega að honum í umhverfi sem er laxinum fjandsamlegt. Það má ekki og á ekki að taka þessa auknu áhættu.

Eldi í opnum sjókvíum er veruleg ógn við tilvist villtra laxastofna á Íslandi. „Maður hefur miklar áhyggjur vegna smæðar villtra stofna. Eina leiðin til þess að friður náist um fiskeldi, verða menn að ala ófrjóa fiska eða nota lokuð kerfi,“ bendir Jón Helgi Björnsson réttilega á í frétt Fréttablaðsins.

“Jón fundaði með Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegsráðherra og fulltrúa Hafrannsóknastofnunar um stöðu villtra laxastofna í síðustu viku. Stjórnarráðið sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem fram kemur að aðstæður fyrir uppgöngu laxa og veiði séu með versta móti. Á fundinum var farið yfir stöðuna almennt.

Afkoma laxa í sjó skiptir miklu máli varðandi endurheimtur og vísbendingar eru um að endurheimtur hafi verið með lægsta móti árið 2019 og almennt farið minnkandi við Atlantshafið, bæði í Noregi og við strendur Skotlands. …

Jón Helgi segir laxeldisfyrirtæki taka óþolandi mikla áhættu með eldi á frjóum laxi.

„Við þurfum að glíma við mikla þurrka og öfga í veðurfari og fiskeldi er álag sem bætist svo ofan á. Við höfum þungar áhyggjur af því að stofnarnir séu ekki nógu öflugir til að þola þetta,“ segir Jón Helgi. Hann segir íslenska stofna veika fyrir og að sleppislys geti skapað mikla hættu.

„Maður hefur miklar áhyggjur vegna smæðar villtra stofna. Eina leiðin til þess að friður náist um fiskeldi, verða menn að ala ófrjóa fiska eða nota lokuð kerfi.“