Við hvetjum fólk til að kynna sér Landsáætlun erfðanefndar landbúnaðarins sem er nú birt í þriðja sinn. Þetta er merkilegt rit þar sem meðal annars er fróðlegur kafli um ferskvatnsfiska. Við leyfum okkur að birta eftirfarandi orð úr þeim hluta:

„Laxeldi í sjókvíum er álitið ógn við villta stofna laxa og laxfiska. Helstu áhrifin eru talin vera vegna mögnunar og útbreiðslu sjúkdóma og laxalúsar og erfðablöndunar við villta stofna.

Á Íslandi er notaður eldisstofn af framandi uppruna (norskur) í sjókvíaeldi. Vegna þeirrar áhættu sem því fylgir hefur erfðanefnd landbúnaðarins lagst gegn notkun hans.

Í Noregi má aðeins ala eldislax af innlendum uppruna í sjókvíum en þó eru strokulaxar úr eldi taldir helsta ógn við villta stofna þar í landi, einkum vegna erfðablöndunar.

Erfðablöndun hefur mælst í flestum laxastofnum í Noregi sem rannsakaðir hafa verið.

Erfðablöndun getur brotið upp náttúrulega aðlögun, breytt erfðasamsetningu (gert þá líkari eldislöxum) og valdið erfðafræðilegri einsleitni laxastofna.

Áhrifin geta komið fram í hnignun stofna, breyttri lífssögu, minni getu til að bregðast við loftslagsbreytingum og minni líffræðilegri fjölbreytni.“

https://www.agrogen.is/news/landsaaetlun-um-verndun-erfdaaudlinda-i-islenskri-natturu-og-landbunadi-2019-2023/