Í ljósi frétta af stórfelldum nýjum áformum um landeldi á Reykjanesi, í Ölfusi og í Vestmannaeyjum er rakið að rifja upp sögu Superior Fresh sem elur ekki bara Atlantshafslax á landi víðsfjarri sjó í Wisconsin ríki í Bandaríkjunum, heldur ræktar gríðarlega mikið af grænmeti. Gróðurhúsið er sambyggt landeldisstöðinni og það sem fellur til af úrgangi við eldið er hreinsað og notað sem áburður í gróðurhúsinu. Þannig þrífst þessi búskapur beinlínis saman.
Í sjókvíaeldi er hins vegar öllu dembt í hafið óhreinsuðu, fóðurleyfum, fiskaskítnum, skordýraeitri og koparhúð af netunum, þannig að undir kvíastæðunum safnast upp eitruð fjöll af úrgangi og allt botndýralíf deyr. Sjókvíaeldi í opnum netapokum er skelfileg tímaskekkja.
Öll tækni er til staðar til að tryggja lágmarksáhrif á umhverfið og lífríkið við laxeldi. Sú furðulega staða er komin upp að íslensk fyrirtæki ætla að fara þá ábyrgu leið á sama tíma og sjókvíaeldisfyrirtækjum í eigu Norðmanna og félaga skráð á skattaskjólssvæðum á borð við Kýpur, er leyft að sóða út íslenska náttúru.